Komið að endalokum einkalífsins?

AFP

Nokkuð er síðan byrjað var að boða endalok einkalífsins. Um aldamótin komu út tvær bækur með nokkurra mánaða millibili, sem hétu The End of Privacy. Fréttir staðfesta að við búum í eftirlitssamfélagi. Stjórnvöld fylgjast með og leyniþjónustur sanka að sér upplýsingum eins og ryksugur í þeirra umboði, en þau eru ekki ein um hituna. Fjölmiðlar og fyrirtæki nota upplýsingatæknina og félagsvefir, sem milljónir manna nýta sér af fúsum og frjálsum vilja, nota flóknar stærðfræðijöfnur til að kortleggja notendurna.

Litlir drónar taka lífsýni

Þessi mál voru til umræðu á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss í liðinni viku. Þar lýstu fræðimenn við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum því yfir að í raun væri hugmyndin um friðhelgi einkalífsins nú þegar dauð. Umræðunum var lýst í frétt frá frönsku fréttaþjónustunni AFP og er sýninni, sem þar kom fram, lýst sem „skelfilegri“ af höfundi, Richard Carter. Hér er byggt á frásögn hans.

„Velkominn til dagsins í dag. Við erum þegar í þessum heimi,“ sagði Margo Seltzer, prófessor í tölvuvísindum við Harvard, og bætti við: „Friðhelgi einkalífs eins og við þekktum hana hér áður fyrr er ekki lengur möguleg... Okkar viðtekna hugmynd um einkalíf er dauð.“

Sophia Roosth, dósent við Harvard, sagði að „óhjákvæmilegt“ væri að erfðafræðilegar upplýsingar einstaklinga yrðu í vaxandi mæli almenningseign. Hún sagði að nú þegar væri farið að fela njósnurum það verkefni að safna erfðafræðilegum upplýsingum um erlenda leiðtoga til að komast að því hvort þeir væru veikir fyrir tilteknum sjúkdómum og hverjar lífslíkur þeirra væru.

„Við erum við upphaf tíma erfðafræðilegs McCarthyisma,“ sagði hún og vísaði til kommúnistaveiða í Bandaríkjunum á sjötta áratug 20. aldar.

Seltzer kvaðst sjá fyrir sér heim þar sem litlir drónar á stærð við moskítóflugur flygju um og tækju lífsýni úr einstaklingum, til dæmis fyrir stjórnvöld eða tryggingafélög, og spáði því að innrásir í einkalífið ættu eftir að verða mun algengari en nú.

„Þetta snýst ekki um hvort það muni gerast, það hefur þegar gerst... Við lifum nú þegar í eftirlitssamfélagi.“

Stjórnmálafræðingurinn Joseph Nye, sem einnig kennir við Harvard, ræddi dulkóðun samskipta og þá hugmynd að setja reglur, sem tryggja að stjórnvöld geti alltaf skoðað jafnvel dulkóðuð skilaboð í þágu þjóðaröryggis.

Bakdyr fyrir eftirlit

„Ríkisstjórnir tala um að setja bakdyr á samskipti þannig að hryðjuverkamenn geti ekki átt samskipti án þess að hægt sé að njósna um þá,“ sagði Nye við áheyrendur sína. „Vandinn er sá að ef ríkisstjórnir geta gert það geta vondu mennirnir gert það líka. Hvort hafið þið meiri áhyggjur af stóra bróður eða meinfýsna litla frændanum?“

Í frásögn AFP af fundinum lögðu frummælendur þó áherslu á að hinar jákvæðu hliðar tækninnar vægju mun þyngra en þær neikvæðu. Benti Seltzer á að rétt eins og hægt væri að nota litla dróna til að njósna um fólk mætti senda þá inn á ebóludeild sjúkrahúss til að „eyða sýklunum“. „Tæknin er til staðar, það er undir okkur komið hvernig við notum hana,“ sagði hún.

Í Davos var einnig fjallað um gervigreind þar sem frummælendur virtust hafa sætt sig við að takmörk á einkalífið væri hluti þess að vera til á okkar tímum. Anthony Goldbloom, ungur tæknifrumkvöðull, sagði að það sem hann kallaði „Google-kynslóðina“ legði mun minni áherslu á friðhelgi síns einkalífs en kynslóðirnar á undan. „Ég skipti á friðhelgi einkalífsins fyrir þægindi. Einkalífið veldur mér ekki áhyggjum,“ sagði hann. „Síðan hegðar fólk sér oft betur þegar það hefur á tilfinningunni að fylgst sé með því.“

Í gömlum skáldsögum var eftirlitsríkið notað til að leggja fram hryllingssýn um framtíðina. Í bók Daves Eggers, The Circle, er einkalíf úr sögunni í Bandaríkjunum og risastórt fjölmiðlafyrirtæki er með alla þræði í hendi sér. „Leyndarmál eru lygar, að deila er umhyggja og einkalíf er þjófnaður,“ er kjörorðið.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir stríði á hendur netglæpum í stefnuræðu sinni á þriðjudag. „Engin erlend þjóð, enginn hakkari ætti að geta lokað netkerfum okkar, stolið viðskiptaleyndarmálum okkar eða ráðist inn í einkalíf fjölskyldna okkar, sérstaklega barna,“ sagði hann.

Þessi barátta krefst eftirlits, sem getur skarast við friðhelgi einkalífsins, eins og talsmaður Obama sagði eftir að Bandaríkjaforseti hafði rætt þessi mál við David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Talsmaðurinn sagði að stjórnvöld og öryggisstofnanir þyrftu aðgang að upplýsingum til að vernda borgarana: „Um leið er mikilvægt að stjórnvöld verndi einkalíf borgaranna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert