Ekið á ljósastaur við Sæbraut

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Bifreið var ekið á ljósastaur við Sæbraut í Reykjavík í nótt. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu voru þrír í bifreiðinni sem má kalla góðkunningja lögreglu. Er fólkið grunað um neyslu fíkniefna skömmu fyrir aksturinn og fundust fíkniefni í bifreiðinni og þótti mikil mildi að lítil sem engin umferð var á þeim tíma sem þau voru á ferðinni. Að sögn lögreglu sluppu þau öll með minniháttar áverka en þurfa að gista í fangaklefa þangað til hægt er að ræða við þau vegna málsins. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang voru tveir úr bifreiðinni enn fastir í bifreiðinni og þurfti að losa þau út.

Jafnframt var tilkynnt um reyk frá íbúð í nótt á höfuðborgarsvæðinu. Var slökkvilið og lögregla send á staðinn. Um reyk úr ofni var að ræða og fór því vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert