Þegar refsað fyrir hefndarklám

Fangelsi liggur við því að særa blygðunarkennd fólks með lostugu …
Fangelsi liggur við því að særa blygðunarkennd fólks með lostugu athæfi. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur þegar refsað fyrir það sem í frumvarpi Bjartrar framtíðar er nefnt hefndarklám. Stuðst var við ákvæði almennra hegningarlaga þar sem hámarks refsing er fjögurra ára fangelsi. Björt framtíð leggur hins vegar til að hámarks refsing við hefndarklámi sé tveggja ára fangelsi.

Eins og fram kom á mbl.is í dag er um að ræða frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum og vilja flutningsmenn þess, þau Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall að hefndarklám verði gert refsinæmt.

Frétt mbl.is: Þingmenn skilji alvarleika hefndarkláms

Í greinargerð með frumvarpinu segir eftirfarandi um hefndarklám: „Hefndarklám felur í sér dreifingu eða birtingu á myndum eða myndskeiðum án leyfis þess sem á myndefninu er og sem er til þess fallið að valda viðkomandi tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir hann.“ Þá segir að þeir sem gerist þannig brotlegir skuli sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.

Lostugt athæfi eða ekki?

Í október 2007 var kveðinn upp dómur í Hæstarétti yfir ungum karlmanni sem gefið var að sök að hafa á heimilli sínu í apríl 2004 tekið mynd á farsíma sinn af nakinni stúlku án hennar vitneskju og síðar sýnt sjö karlmönnum og einni konu myndina. Raunar sýndi hann fjórum karlmönnum til viðbótar aðra mynd, af kynfærum konu, og sagði að um sömu konu væri að ræða.

Fyrir hönd ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir, núverandi ríkissaksóknari. Í ákæru var tilgreint að háttsemin varðaði við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Greinin er orðrétt á þessa leið: „Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en varðhaldi eða sektum ef brot er smávægilegt.“

Meðal þess sem tekist var á um við meðferð málsins fyrir dómstólum var hvort athæfi mannsins, að taka ljósmynd af nakinni konu og sýna öðrum, hafi verið lostugt athæfi til þess að hægt sé að refsa samkvæmt umræddri grein þarf það að vera hafið yfir skynsamlegan vafa.

Sýknaður í héraði

Héraðsdómur Norðurlands vestra sýknaði manninn af kröfum ákæruvaldsins og vísað var til þess að háttsemin hefði þurft að vera lostug. Vísað var til greinargerðar frumvarps til breytingar á almennum hegningarlögum frá 1992 en þá var sérstaklega fjallað um 209. grein laganna. Þar segir „Af nýjum sérákvæðum [...] leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.“

Í niðurstöðu héraðsdóms segir í kjölfarið: „Þetta bendir ótvírætt til þess að með lostugu athæfi sé átt við háttsemi af kynferðislegum toga sem er til þess fallin að veita þeim sem slíka háttsemi hefur í frammi einhverja kynferðislega fullnægju. Ekkert bendir til þess að svo hafi verið í tilfelli ákærða. Eru því ekki efni til að sakfella hann fyrir brot gegn nefndri 209. gr. almennra hegningarlaga.“

Dómurinn hlaut hörð viðbrögð, meðal annars frá Femínistafélagi Íslands, sem sagði að réttarkerfið hefði brugðist.

Snúið við í Hæstarétti

Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar sem féllst ekki á túlkun héraðsdóms á aðstæðum í málinu. Í niðurstöðu réttarins segir: „Hlutrænt séð og eins og aðstæðum var háttað í umrætt sinn verður að líta svo á að taka myndarinnar og eftirfarandi sýning hennar og annarrar myndar úr sama síma, er ákærði sagði vera af kynfærum stúlkunnar, hafi verið lostugt athæfi í skilningi ákvæðisins. [...] Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og unnið til refsingar samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga.“

Hæstiréttur skýrir það ekki frekar á hvaða hátt háttsemin var lostugt athæfi en dæmdi manninn í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða stúlkunni miskabætur. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að dráttur varð á rannsókn málsins hjá lögreglu.

209. grein kann að eiga við

Þess ber að geta að í nefndri greinargerð sem Héraðsdómur Norðurlands vestra vísaði til segir einnig að tilgangur nýrra ákvæða í almennum hegningarlögum sé til að veita kynferðislegri áreitni, sem ekki teljist slík misnotkun á líkama að að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt, þ.e. „önnur kynferðismök“, meiri athygli en áður og taka harðar á þeim brotum. „

Þá segir að þess háttar brot hafi fyrir lagabreytinguna verið heimfærð undir 209. gr. laganna. „Hér er átt við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga sem hingað til hefur verið heimfært undir 209. gr. laganna.“

Ennfremur segir að ef brot falli ekki undir verknaðarlýsingu í nýju ákvæðunum kunni 209. gr. laganna að eiga við um þau.

Nær ekki yfir öll ákvæði frumvarpsins

Þar sem Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm í ofangreindu máli er mögulegt að hefndarklám geti fallið undir 209. grein almennra hegningarlaga og ljóst að þá liggur þyngri refsing við verknaðinum en verði frumvarp Bjartrar framtíðar að lögum.

Þrátt fyrir það er ljóst að 209. grein nær ekki yfir annað ákvæði í umræddu frumvarpi en það hljóðar svo: „Hver sem birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum og birting eða dreifing er til þess fallin að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir þolandann skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.

Frumvarp Bjartrar framtíðar bíður fyrstu umræðu á Alþingi og getur tekið breytingum í meðförum þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert