Sakna litríku teygjubindanna

Litríku teygjubindin vöktu jákvæða athygli á blóðgjöfum.
Litríku teygjubindin vöktu jákvæða athygli á blóðgjöfum. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Blóðbankans

„Allir sakna þessara fallegu og litríku teygjubinda, en auðvitað snýst þetta um krónur og aura og Landspítalinn þarf að reka sig,“ segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður blóðsöfnunar í Blóðbankanum, en vegna sparnaðar er Landspítalinn nú hættur að kaupa teygjubindi í skærum litum sem hafa lengi verið einkennandi fyrir Blóðbankann.

Að sögn Jórunnar eru teygjubindin pöntuð frá birgðastöð spítalans, en í staðinn fyrir litríku teygjubindin fóru að koma brún. Þegar fyrsti slíki kassinn var sendur í Blóðbankann sendu starfsmenn hann til baka því þeir héldu að um mistök væri að ræða. Svo var þó ekki, og hefur starfsfólk jafnt sem blóðgjafar verið ansi forviða á þessu.

„Bæði starfsfólk og blóðgjafar sakna gömlu teygjubindanna. Þau voru góð, litrík og skemmtileg en þessi sem tóku við eru það ekki eins mikið. Svo límast þau ekki eins vel saman,“ segir Jórunn. „Þetta er hundleiðinlegt.“

Litríku teygjubindin undirstrikuðu hvað það er jákvætt að gefa blóð

Litríku teygjubindin hafa vakið jákvæða athygli á Blóðbankanum síðustu ár, og jafnvel auglýst blóðgjafir. Að sögn Jórunnar voru þau þó ekki hugsuð sem auglýsing, en vissulega hafi þau haft jákvæð áhrif. „Þau undirstrikuðu hvað það er jákvætt að gefa blóð og það getur vissulega skipt máli. Svo hafa foreldrar oft gefið börnum sínum teygjubindið til að setja á bangsa og dúkkur og þá lifir þetta lengur sem góð og jákvæð kynning.“

„En þegar peningar skipta jafn miklu máli eins og þeir gera í dag þá skilur maður það og sættir sig við það. Nú þurfum við bara að fara að teikna broskalla á þessi nýju,“ segir hún að lokum og hlær. 

Auk Blóðbankans voru litríku teygjubindin notuð á Barnaspítalanum, en nú hafa þau brúnu jafnframt tekið við þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert