Unglingar greiða fullan skatt

Mörg ungmenni starfa við að bera út blöð eða póst.
Mörg ungmenni starfa við að bera út blöð eða póst. Ljósmynd/ Eyþór Árnason

Þeir unglingar sem verða 16 ára á árinu og því skattskyldir hafa ekki enn fengið skattkort og greiða því fullan skatt fyrir janúarmánuð. 

Á heimasíðu Ríkisskattstjóra stendur að allir þeir sem verða 16 ára á árinu fái sent skattkort í ársbyrjun en senn líður að lokum fyrsta mánaðar ársins og ekkert bólar á kortunum.

Mbl.is ræddi við móður stúlku sem verður 16 ára í apríl og vinnur sem blaðberi meðfram námi. Móðir hennar segir að það sama eigi við um marga samstarfsmenn stúlkunnar sem eru á sama aldri.

„Vinnuveitandinn þurfti að fá skattkortið fyrir 20. janúar og getur auðvitað ekkert í þessu gert. Hún fær 30 þúsund krónur í  laun á mánuði og þegar tekinn er fullur skattur af því er ekki mikið eftir,“ segir móðir stúlkunnar og bætir við að það sé auðvitað afar ósanngjarnt að ungt fólk fái ekki launin sín vegna seinagangs skattstjóra.

Móðirin ræddi við starfsfólk ríkisskattstjóra í dag sem sagði að kortin hefðu átt að fara í póst þann 9. janúar. Í síðustu viku hafi hinsvegar uppgötvast að það hafi ekki gerst og að skattkortin hafi því verið póstlögð í upphafi vinnuvikunnar svo unglingarnir megi búast við að fá þau í dag eða á morgun, eða jafnvel eftir helgina.

Ekki náðist í starfsfólk ríkisskattstjóra við vinnslu fréttarinnar og er því ekki ljóst hvers vegna það láðist að póstleggja kortin svo lengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert