Miklar grynningar í Landeyjahöfn

Ráðamenn í Vestmannaeyjum funduðu í dag um stöðuna í Landeyjahöfn en miklar grynningar eru nú í og við höfnina, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í gær.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, þvertekur fyrir að um einhvern neyðarfund hafi verið að ræða. Langt sé síðan boðað var til fundarins. „Annars vegar var um að ræða samráðsfund með sjómönnum og skipstjórum þar sem farið var yfir stöðuna, væntingar og fengum við ábendingar um nýja hönnun og fleira. Og hins vegar var þetta upplýsingafundur fyrir pólitíska fulltrúa,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segist vera ósáttur við hve lítið hefur verið gert til að bæta úr samgöngumálum til og frá Vestmannaeyjum. Ekkert við stöðuna komi því á óvart. „Hún er nákvæmlega sú sama og hún er búin að vera seinustu ár, 2013, 2012 og 2011. Og svona verður hún þangað til eitthvað verður gert. Þetta er bara veruleikinn sem við búum við. Staðan verður bara svona þangað til ríkið gerir eitthvað í samgöngumálum við Vestmannaeyjar.“

Haft var eftir Óttari Jónssyni, skipstjóra dýpkunarskipsins Dísu, í Morgunblaðinu í seinustu viku að sandurinn í Landeyjahöfn hafi aldrei verið eins mikill. Mjög erfitt sé að athafna sig á svæðinu.

Allt frá því að Landeyjahöfn var opnuð um mitt sumar 2010 hefur þurft að beina yfir 1.100 ferðum Herjólfs til Þorlákshafnar, þar sem ekki hefur verið mögulegt að sigla til Landeyjahafnar. Ástandið hefur verið langverst yfir vetrartímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert