Undrast stefnu Landverndar

Forstjóri Landsnets hafnar því að fyrirtækið hafi brotið lög.
Forstjóri Landsnets hafnar því að fyrirtækið hafi brotið lög. mbl.is/Einar Falur

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segist undrast stefnu Landverndar á hendur fyrirtækinu. Hann hafnar því alfarið að fyrirtækið hafi brotið lög.

Eins og greint var frá í kvöld telur Landvernd að kerfisáætlun fyrirtækisins, um flutning raforku á Íslandi, til ársins 2023 sé í ósamræmi við raforkulög. Landvernd hefur stefnt fyrirtækinu fyrir dóm og verður málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag.

„Ástæðan fyrir því að við undrumst þessa stefnu er einkum sú að kerfisáætlun Landsnets er unnin samkvæmt raforkulögum frá árinu 2003 og er hún fyrst og fremst hugsuð sem áætlun þar sem valkostir eru kynntir, metnir og bornir saman. Í henni felast engar bindandi ákvarðanir af neinu tagi. Þær eru allar teknar á síðari stigum, þegar nákvæmari vinna hefur farið fram, meðal annars umhverfismat,” segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

Öllum athugasemdum svarað

Landvernd telur jafnframt að Landsnet hafi brotið lög með því að taka ekki afstöðu til nema brots af innsendum athugasemdum við gerð áætlunarinnar og umhverfismats hennar, eins og lög bjóða.

Landsnet fékk 23 athugasemdir sendar inn í ferlinu og segir Guðmundur Ingi að þeim hafi öllum verið svarað skriflega og afgreiddar í hefðbundnu ferli, eins og venja er.

Landvernd telur einnig að kerfisáætlunin sé í ósamræmi við raforkulög þar sem Landsnet setji fram sína eigin raforkuspá þar sem fyrirtækið gefi sér þær forsendur að allt að allur orkunýtingarflokkur rammaáætlunar komi til framkvæmda á næstu tíu árum.

Horfa á nýtingarflokk sem viðmið

Guðmundur Ingi segir að þegar áætlunin sé sett upp sé tekið mið af þeim upplýsingum sem eru bestar hverju sinni, nýtingarflokkur rammaáætlunar sé meðal annars lagður til grundvallar. „Síðan þegar teknar eru ákvarðanir um uppbygginguna, þá gerum við okkur, eins og aðrir, grein fyrir því að virkjanir í nýtingarflokki þurfa að fara í gegnum umhverfismat og önnur ferli.

Ákvarðanir um uppbyggingu eru í rauninni ekki teknar fyrr en meiri vissa er um framkvæmdirnar. Þannig að við horfum á nýtingarflokkinn einkum sem viðmið. Við gerð kerfisáætlunarinnar þurfum við að horfa til mjög langs tíma því að kerfið þarf að byggjast upp og mannvirkin standa í langan tíma. Það er algjörlega óraunhæft að búið sé að taka allar ákvarðanir um uppbyggingu virkjana þegar áætlun af þessu tagi er unnin.“

Hann tekur fram að hann og lögmenn Landsnets hafi ekki haft mikinn tíma til að skoða stefnuna. Þeir eigi eftir að fara betur yfir hana.

Frétt mbl.is: Landvernd höfðar mál gegn Landsneti

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert