Fjölbýlishús rýmt í eldsvoða

Lítið fjölbýlishús í Hörðalandi í Fossvogi var rýmt í nótt vegna elds í kjallaraíbúð hússins. Tveir fóru á bráðamóttöku vegna gruns um reykeitrun, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Tilkynnt var um eldinn í Hörðalandi 10 skömmu fyrir klukkan eitt í nótt en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið að íbúi hafi sofnað út frá eldamennsku. Var hann annar þeirra sem fóru á bráðamóttöku um nóttina.

Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu var mikill eldur í eldhúsinu og eldhúsinnréttingin mjög illa farin. Sót barst um alla íbúð og reykur sem og upp stigagang hússins og því allar íbúðir rýmdar. Íbúar í stigaganginum eru níu talsins.

Um klukkustund síðar var reykræstingu lokið og íbúar komnir aftur í íbúðir sínar. Að sögn varðstjóra ætluðu íbúar sjálfir að meta hvort þeir myndu gista á heimilum sínum það sem eftir lifði nætur eða fá að gista hjá ættingjum og vinum. Skemmdir eru óverulegar samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert