Nauðsynlegt að breyta um stefnu

Alþingi. Myndin er úr safni.
Alþingi. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn

Menn hafa flotið sofandi að feigðarósi á undanförnum árum og áratugum hvað varðar íbúðarkaup ungs fólks. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í sérstakri umræðu um ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup, sem nú stendur yfir á Alþingi.

Guðlaugur sagði að það fyrirkomulag að aðstoða fólk með bótum á vexti væri skuldhvetjandi og byggði á þeirri forsendu að fasteignir hækkuðu í verði. Hann sagði að ekki hefði mátt ræða þetta undanfarin ár, en sagðist hafa bent á það 2004 hvernig vandræði sköpuðust á Norðurlöndunum þegar fasteignaverð hætti að hækka.

„Hvað ætlum við að gera til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur?“ spurði þingmaðurinn og sagði ljóst að breyta þyrfti um stefnu. Hann sagði ótækt að búa við fyrirkomulag sem hvetti fólk til að skulda og að grípa þyrfti til aðgerða til að hjálpa fólki að eignast. Hann sagði að þegar hefði verið gripið til úrræða, en betur þyrfti ef duga skyldi.

Guðlaugur sagði hátt lóðaverð og strangar byggingareglugerðir meðal þess sem gerði fólk erfitt fyrir. Ræða þyrfti málið, því svo virtist sem allt væri á sömu leið og áður. Þá vakti hann máls á því að svo virtist sem óhagstæðustu lánin á markaði, 40 ára verðtryggð lán, væru vinsælustu lánin.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tók undir orð Guðlaugs um að breyta þyrfti um stefnu og læra af reynslu síðustu ára. Hún sagði að ótækt að fara sömu leið og áður; grípa til lánsveða eða hækka lánshlutfall.

Ráðherra sagði þá spurningu liggja fyrir hvernig gera ætti ungu fólki kleift að safna fyrir íbúð. Hún ljáði máls á því að gera húsnæðissparnað fyrir ungt fólk að varanlegu fyrirbæri. Þá væri mikilvægt að ná niður húsnæðiskostnaði á leigumarkaði og tryggja nægt framboð af leiguhúsnæði. Ekki hefði verið nægilega hugað að framboðshlið málsins.

Ráðherra sagði sveitarfélögin bera mikla ábyrgð á því að móta eigin húsnæðisstefnu og tryggja fjölbreytni í framboði.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði vandann aðallega stafa af háu húsnæðisverði og háu leiguverði. Hann sagðist sammála Guðlaugi að eðlilegt væri að draga úr skuldsetningu og hafa ekki frammi aðgerðir sem hvetja til skuldsetningar.

Þá sagði hann séreignasparnaðarleiðina ágæta, en hún væri háð því að fólk hefði tekjur. Finna þyrfti úrræði fyrir þá sem væru í námi. Hann sagði áhugavert að sjá aukna áherslu hjá Reykjavíkurborg á byggingu minni íbúða.

Árni Páll spurði einnig að því hvað ætti að gera við þá sem ekki ættu peninga. Hann sagði að á meðan staðan væri sú að leiga á lítilli íbúð væri meiri en helmingi dýrari en afborgun af 40 ára húsnæðisláni væri ekki fýsilegt að banna þau lán. Þau væru óhagstæð en þó úrræði fyrir þá sem ekki ættu peninga.

Jón Þór Ólafsson Pírati sagðist aldrei myndu taka húsnæðislán en vakti máls á svokallaðri lyklaleið, þar sem fólk gæti einfaldlega skilað lyklum að húsnæði sínu ef það gæti ekki staðið í skilum.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði mögulegt að bóla væri aftur farin að myndast á fasteignamarkaði. Hann sagði lítinn hvata til sparnaðar og að tekjur væru lítt metnar í aflahæfi þegar kæmi að lánshæfismati. Hann hvatti til þess að menn hefðu varann á og færu ekki í aðgerðir sem hefðu þau áhrif að fasteignaverð færi enn hækkandi.

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði Ísland í samkeppni við útlönd um unga fólkið. Hann sagði mismunun að moka milljörðum í skuldaleiðréttingar þeirra sem ættu húsnæði, á kostnað þeirra sem ættu eftir að koma undir sig fótunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert