Hávaðarok og éljagangur

mbl.is/Styrmir Kári

Það er víða mjög hvasst vestan til á landinu og á Suðausturlandi. Rokinu fylgir éljagangur og að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, fer ekki að lægja fyrr en síðdegis. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er Öxnadalsheiðin ófær en þar eru 23 metrar á sekúndu. Von er á nýjum upplýsingum frá Vegagerðinni um sjöleytið.

Ekki er hætta á vatnavöxtum í dag þar sem veður fer kólnandi og frost um nánast allt land, allt að sjö stiga frost. Spáð er 13-23 metrum á sekúndu og er vindhraðinn mun meiri í hviðum.

Í gær ruddi Norðurá sig á móts við bæinn Hraunsnef í Norðurárdal með þeim afleiðingum að klakastykki braut rafmagnsstaur svo sveitin varð rafmagnslaus. Í gærkvöldi flæddi vatn yfir þjóðveginn við Fornahvamm svo Holtavörðuheiði var lokað um tíma.

Veðurhorfur næstu daga:

Á miðvikudag:
Vestanátt, víða 8-13 m/s og él, einkum við V- og N-ströndina, en léttskýjað á SA- og A-landi. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.

Á fimmtudag:
Breytileg átt 3-10 m/s og yfirleitt þurrt, en él nyrst framan af degi. Áfram kalt í veðri. Vaxandi austanátt um kvöldið og fer að snjóa S-lands.

Á föstudag:
Suðaustanátt með snjókomu, síðar slyddu eða rigningu. Suðvestlægari og él um kvöldið. Hlánar um tíma síðdegis.

Á laugardag, sunnudag og mánudag:
Suðlæg eða breytileg átt, úrkoma með köflum og hiti kringum frostmark.

Færð á landinu klukkan 22 í gærkvöldi

Hálka og éljagangur á Hellisheiði, í Þrengslum, Mosfellsheiði og á Lyngdalsheiði. Snjóþekja er víða í uppsveitum.

Á Vesturlandi er hálka og éljagangur á Bröttubrekku og hálkublettir og él á Holtavörðuheiði og víða á Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Skafrenningur er víða á fjallvegum. 

Hálkublettir eru víða á Norðurlandi. Hálka og éljagangur er á Þverárfjalli og hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði.

Á Austurlandi er víða greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað.

Hálkublettir og éljagangur er austan við Vík og snjóþekja og él austan við Kirkjubæjarklaustur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert