Umsóknirnar streyma inn

Hreindýraveiðar hafa verið mjög eftirsóttar og svo virðist vera enn.
Hreindýraveiðar hafa verið mjög eftirsóttar og svo virðist vera enn. Eggert Jóhannesson

Fjöldi umsókna um hreindýraveiðileyfi virðist ætla að verða svipaður nú og hann hefur verið undanfarin ár. Í morgun höfðu Umhverfisstofnun borist 2.650 umsóknir en í boði eru 1.412 hreindýraveiðileyfi. Umsóknarfresturinn er til og með sunnudagsins 15. febrúar. Dregið verður úr umsóknum 21. febrúar næstkomandi.

Jóhann G. Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum, sagði að samkvæmt reynslu berist 200-300 umsóknir um hreindýraveiðileyfi á dag síðustu daga skilafrestsins. Hann sagði að ef menn finni ekki lykilorðið til að sækja um með rafrænum hætti þá ættu þeir að hafa samband við Umhverfisstofnun fyrir helgina til að tryggja að þeir komist inn á skilavefinn.

„Þeir veiðikortahafar sem eru að sækja um í fyrsta sinn þurfa að muna eftir því að senda staðfestingu sem sýnir að þeir hafi B réttindi í skotvopnaleyfinu,“ sagði Jóhann.

Sú breyting verður nú að þeir sem fá úthlutað veiðileyfi þurfa að greiða það að fullu ekki síðar en 15. apríl. Leyfi til að veiða tarf kostar 135.000 krónur og til að veiða kú 80.000 krónur. Veiðimenn þurfa síðan að standast skotpróf og mega reyna við það þrisvar sinnum. Jóhann sagði að þeir sem falla í öll skiptin á skotprófinu og geta því ekki farið á veiðar muni fá veiðileyfið endurgreitt að fullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert