Ber stjórnmálamenn þungum sökum

Ólafur Ólafsson var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi …
Ólafur Ólafsson var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti mbl.is/Þórður

Ólafur Ólafsson kaupsýslumaður sem var í síðustu viku dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu svonefnda segir í viðtali við Reuters fréttastofuna að hann telji að dómararnir hafi sammælst um það fyrst hver niðurstaðan ætti að vera og síðan skrifað dóminn.

„Ísland er mjög lítið land... Múrarnir milli stjórnmálamanna og embættismanna eru afar þunnir,“ segir Ólafur í símaviðtali við Reuters fréttastofuna um helgina.

Að sögn Ólafs ákváðu stjórnmálamennirnir að leggja alla áhersluna á bankageirann en ekki að rannsaka hvað var að í hagkerfinu sem heyrir undir þeirra ábyrgð.

Ólafur býr í Sviss og er starfandi stjórnarformaður Samskipa, sem er samkvæmt Reuters skráð í Hollandi. Að sögn Ólafs mun hann snúa aftur til Íslands þegar hann verður kallaður til afplánunar. 

„Það kann ekki góðri lukku að stýra að stinga höfðinu í sandinn líkt og strúturinn gerir. Þú verður að takast á við allar þær áskoranir sem þú stendur frammi fyrir í lífinu,“ segir hann.

Að sögn Ólafs er hann ekki bjartsýnn á að mannréttindadómstóll Evrópu samþykki að taka mál hans fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert