Fjögur hundruð börn þurfa að bíða

280 börn á leikskólaaldri bíða eftir talþjálfun hjá Talþjálfun Reykjavíkur. …
280 börn á leikskólaaldri bíða eftir talþjálfun hjá Talþjálfun Reykjavíkur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Styrmir Kári

Um fjögur hundruð börn bíða eftir að hefja talþjálfun hjá Talþjálfun Reykjavíkur, þarf af 280 börn á leikskólaaldri. Hátt í tuttugu mánaða bið er eftir þjónustunni í dag en haustið 2013 var biðtíminn um tólf mánuðir.

Foreldrar drengs sem þarf á talþjálfun á halda fengu þær upplýsingar fyrir ári síðan að sonur þeirra kæmist að í talþjálfun eftir eitt ár. Þegar þau höfðu samband nýlega fengu þau aftur á móti að vita að hann þyrfti að bíða í hátt í ár til viðbótar.

Áður höfðu foreldrarnir beðið í nokkra mánuði eftir þjónustu hjá þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eftir að hafa verið vísað þangað eftir 18 mánaða skoðun. Staða foreldrana er því sú að eftir að grunur kemur upp um röskun í þroska í 18 mánaða skoðun er ekki talþjálfun í boði fyrr en drengurinn nær 4 ára aldri

Foreldrarnir einir á báti

Bryndís Guðmundsdóttir, einn eiganda Talþjálfunar Reykjavíkur, segir biðina eftir tíma hjá stofunni vera um 15 til 20 mánuði. Á biðlistanum eru um 280 börn á leikskólaaldri, rúmlega eitt hundrað börn í grunnskóla og fjórir fullorðnir. Til stofunnar leita foreldrar og forsjáraðilar barna sem hafa fengið tilvísanir frá læknum og starfsfólki stofnana vegna þess að börn þeirra þurfa á talþjálfun að halda.

Hún segir biðina vissulega mjög langa en mikilvægt sé að foreldrar sitji ekki aðgerðarlausir á meðan beðið er eftir tíma. Sveitarfélögin beri ábyrgð á sérfræðiþjónustu og ráðgjöf og eigi þau að veita greiningu og ráðgjöf samkvæmt reglugerð um sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla en misjafnt sé hversu vel sé staðið að því.

Talmeinafræðingur getur veitt sérkennurum í leikskóla og foreldrum  mjög góðar upplýsingar og ráðleggingar um hvað hægt er að gera á meðan beðið er eftir þjálfun. „Þarna er víða pottur brotinn. Foreldrum finnst þeir vera einir á báti,“ segir Bryndís.

Hún segir að mörg sveitarfélög sem ekki hafa talmeinafræðinga í starfi hafi leyst mál með þeim hætti að leita til talmeinafræðinga með verktöku. Ef ekkert sé gert á meðan barn sem hefur slakan orðaforða og málþroska á leikskólaaldri bíður eftir tíma í talþjálfun, megi búast við mun stærri vanda þegar barnið er komið í skóla og gæti það komið fram í námserfiðleikum.

Þurfa að fá þjálfun í sínu daglega umhverfi

„Stóri vandinn er sá að það eru ekki talmeinafræðingar að störfum hjá þessum stofnunum sem sjá um greiningu og ráðgjöf á börnum,“ segir Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar en þetta eru meðal annars skólaskrifstofur. Börn sem glími við málþroskavanda þurfi að vera í þjálfun í sínu daglega umhverfi, til að mynda í leikskólanum.

Á heimasíðu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar segir að öll börn sem fara í 2 ½ árs og fjögurra ára skoðun heilsugæslunnar fari í gegnum málþroskaskimun sem ætlað er að fanga börn með slakan málþroska. Heilsugæslan vísar þeim börnum sem ekki standast skimunina við 2 ½ árs aldurinn til Heyrnar- og talmeinastöðvar til frekari greiningar á málþroska og í heyrnarmælingu.

Börnum sem standast ekki málþroskaskimun við fjögurra ára aldur er hægt að vísa til Heyrnar- og talmeinastöð eða til sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga. Endurteknar eyrnabólgur og vökvi í eyrum geta haft áhrif á tal og málþroska barnsins og því er mikilvægt að það fái viðeigandi meðhöndlun. Ef grunur er um heyrnarskerðingu eða frávik í málþroska er mikilvægt að leita aðstoðar.

Börn sem glíma við málþroskavanda þurfa að vera í þjálfun …
Börn sem glíma við málþroskavanda þurfa að vera í þjálfun í sínu daglega umhverfi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Heiðar Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert