Hvernig á að réttlæta hverjir fara í flóðið?

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, fór yfir sögu eldgosins í Holuhrauni á hádegisfyrirlestri í Háskóla Íslands en fyrirlesturinn var hluti af fyr­ir­lestr­aröðinni Vís­indi á manna­máli. 

Ármann fór yfir upphafið, hvernig vísindamenn hefðu brugðist við þegar tilkynnt var um eldgos og einnig hvernig vísindavinnan hefur farið fram síðan gosið hófst. Þá fór hann yfir næstu skref gossins en yfirborð Baugs, aðalgígsins, hefur minnkað mikið og eru allar líkur að gosinu ljúki - þó erfitt sé að fullyrða það.  

Eftir fyrirlesturinn voru fyrirspurnir frá salnum og var Ármann spurður hvort lokanir á ferðaþjónustu hefðu ekki verið heldur strangar. Ármann sagði ekki svo vera. 

„Ef Bárðarbunga fer af stað, og það er eitt stærsta eldfjall landsins, hulið 70-90% af jökli.  Ef eitthvað hreyfist og fer af stað niður á sandana, sem ferðaþjónustuaðilar vilja vera, þá hafa þeir ferðamenn sem þar eru rúmar 10-15 mínútur til að koma sér í burtu.

Ef ferðaþjónusta er með 400-500 manns dreifða um sandana þegar kallið kemur. Kannski næst að ná í 100-200. Þá eru 300 eftir og hvernig á að réttlæta það hverjir fóru í flóðið? Meðan við erum að glíma við svona alvarlegt ástand og eldfjall þá er ágætt að nota varúðarregluna.“

Góður rómur var gerður að fyrirlestri Ármanns og var hátíðarsalur HÍ smekkfullur af fólki. Opna þurfti tvær auka­stof­ur vegna gríðarlegr­ar aðsókn­ar en þær fyllt­ust einnig fljótt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert