Geta auðveldlega fokið út í foss

Eins og sjá má hafa fleiri tugir ferðamanna klofað yfir …
Eins og sjá má hafa fleiri tugir ferðamanna klofað yfir keðjuna sem lokar stígnum.

Ljósmynd sem birtist á hópnum Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook í dag hefur vakið mikla athygli. Ljósmyndin er tekin af leiðsögumanni á svæðinu og sýnir hvernig tugir ferðamanna hafa gengið að Gullfossi um göngustíg sem er lokaður vegna slysahættu. Ástdís Kristjánsdóttir rekstrarstjóri á Gullfossi segir afar algengt að ferðamenn hunsi lokanir á svæðinu.

Hún nefnir sem dæmi að á sunnudaginn hafi öllum áætlunarferðum með rútum á svæðið verið aflýst vegna veðurs en að það hafi þó ekki stoppað erlenda ferðamenn sem margir hverjir leigðu illa búna bílaleigubíla til að komast á staðinn.

„Það var brjálað veður og ég lét setja traktor fyrir göngustiginn [fyrir ofan fossinn] og útbjó stórt skilti með orðunum „Lokað/Closed“. Ég horfði á fólk koma sér framhjá honum og skríða svo niðureftir. Það stóð ekki í lappirnar,“ segir Ástdís. „Á neðra planinu er ennþá hættulegra að vera í vondu veðri og fólk getur auðveldlega fokið beint út í foss en þar sjáum við auðvitað ekki til.“

Ástdís segir að göngustígurinn frá neðra bílastæðinu við Gullfoss sé lokaður á veturna vegna hættu sem skapast af veðri og vindum enda verði oft flughált við fossinn á þessum tíma. „Það er í raun og veru ófært en það er oft búið að slíta keðjuna þó að hún sé mjög sterk og taka viðvörunarskiltið en svo klofar fólk líka bara yfir þetta.“

Hún segir starfsfólk á svæðinu margoft hafa þurft að hlúa að slösuðum eða illa búnum ferðamönnum sem hafa farið sér að voða á svæðinu. „Ég held að fólk átti sig ekkert á hættunni,“ segir hún og vísar aftur í þá sem sóttu Gullfoss heim á sunnudaginn. „Svo koma þeir hérna, vindbarðir og stoltir með hugsunina -I survived Iceland- en við viljum ekki kynna landið þannig er það?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert