Þjóðareign á auðlindum meginstefið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt er að leysa úr þeirri stöðu sem stjórn fiskveiða er í með ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum hafsins í kringum landið. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann ræddi málið við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar. Sagði ráðherrann að það yrði meginstefið í vinnu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við ný lög um stjórn fiskveiða.

Árni Páll spurði um stöðuna varðandi þá vinnu í ljósi ummæla Sigurðar Inga á dögunum um að ekki yrði lagt fram slíkt frumvarp á þessu þingi og velti því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði einhvers konar neitunarvald í þeim efnum og gæti þar með stöðvað þá vinnu. Sigmundur vísaði því á bug en sagðist skilja vel að Árni Páll hefði áhyggjur af því að það sama myndi endurtaka sig nú og gerðist á síðasta kjörtímabili. Vísaði hann þar til tilrauna þáverandi ríkisstjórna til þess að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu sem náðu ekki fram að ganga.

Formaður Samfylkingarinnar fagnaði því að Framsóknarflokkurinn vildi ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum hafsins. Hins vegar þyrfti Framsóknarflokkurinn ekki á sjálfstæðismönnum að halda enda væri samstaða væri með framsóknarmönnum og stjórnarandstöðunni í þeim efnum. Ef Sigmundi væri alvara um slíkt ákvæði þyrfti frumvarp um slíkar breytingar að koma fram fljótlega. Sigmundur þakkaði Árna Páli það sem hann sagðist skilja sem stuðning við að slíkt ákvæði yrði sett í stjórnarskrána.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert