Vilja lög gegn vígaferðum

Greiningardeild Ríkislögreglustjóra leggur til að lögregla hljóti auknar rannsóknarheimildir og að sett verði lög sem banni ferðalög til þátttöku í erlendum vígasveitum. Þá vill greiningardeild að lögregla verði efld með mannskap og búnaði auk þess sem sköpuð verði félagsleg úrræði fyrir þá sem verða fyrir áhrifum róttækni. Einnig vill greiningardeildin að myndaður verði samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda með auknum heimildum til að miðla upplýsingum um einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings.

Í mati deildarinnar á hryðjuverkaógn gagnvart Íslandi kemur fram að vígamenn hafi farið um Ísland á leið sinni til og frá bardögum fyrir Ríki íslams og að hér á landi sé fólk sem hefur vilja og getu til voðaverka. Því sé ekki hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum hér á landi.

 Í matinu er tekið fram að greiningardeildin hafi ekki upplýsingar um að hryðjuverk séu í bígerð hér á landi en að skortur á rannsóknarheimildum skapi óvissu.

 „Möguleikar til að sækja upplýsingar sem tengjast áformum um að fremja stórfellda árás fara sífellt vaxandi og á það m.a. við um undirbúning, vopn, sprengjugerð og ekki síst fordæmi. Þekkt er að menn „hermi eftir“ ódæðisverkum sem framin hafa verið. Ytri hvatar og áhrifaþættir valda vaxandi óvissu á þessu sviði öryggismála.“

Í tillögum greiningardeildar segir:

 „Í ljósi þeirra hryðjuverka sem framin hafa verið í Evrópu nýlega og þeirra fjölmörgu árása sem unnt hefur verið að afstýra þar á síðustu misserum m.a. á grundvelli aukinna rannsóknarheimilda, er það tillaga ríkislögreglustjóra að gripið verði til eftirfarandi aðgerða:

-Hugað verði að lagasetningu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu vegna rannsókna brota er beinast gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórn s.s. hryðjuverkabrotum, sbr. X. og XI. kafla almennra hegningalaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

-Einnig verði hugað að lagasetningu sem banna ferðalög til þátttöku sem erlendir bardagamenn (e. Foreign fighters) í hryðjuverkastarfsemi.

-Lagt er til að lögreglan verði efld til þess að sinna forvörnum og fyrirbyggjandi starfi á ofangreindu sviði með fjölgun lögreglumanna, sérfræðinga og bættum búnaði.

-Einnig er lagt er til að viðbúnaðargeta almennrar lögreglu þ.m.t. sérsveitar vegna hryðjuverkaógnar og annarra alvarlegra voðaverka verði efld með auknum búnaði og þjálfun.

- Lagt er til að myndaður verði samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda með auknum heimildum til að miðla upplýsingum um einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings.

-Sköpuð verði félagsleg úrræði fyrir þá sem verða fyrir áhrifum róttækni (radikalíseringar, e. radicalization).“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert