Tekinn með barnaklám á reynslulausn

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ómar Óskarsson

Tæplega sextugur maður var í vikunni dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir vörslu barnaníðs og brot á vopnalögum. Maðurinn var á reynslulausn vegna kynferðisbrot gagnvart þroskaskertum pilti.

Jón Sverrir Bragason var stöðvaður af tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 1. ágúst 2014, vegna gruns um að tölvur og minnislyklar sem hann hafði meðferðis innihéldu ólöglegt myndefni. Voru munirnir haldlagðir og við rannsókn mun hafa komið í ljós mikið magn af barnaklámi.

Jón Sverrir var tekinn í skýrslutöku og húsleit fór fram þann 19. ágúst 2014 á dvalarstað hans, þar sem haldlagðar voru tölvur og gagnavörslumunir auk óskráðs loftriffils. Jón Sverrir neitaði sakargiftum hjá lögreglu og bar að aðrir hafi haft aðgang að spjaldtölvu hans erlendis og hugsanlega hafi þeir halað niður umræddu efni en einnig hafi hann keypt notaða minnislykla á markaði í Kína og vera kynni að efnið hafi verið þar fyrir.

Jón Sverrir var með dómi Hæstaréttar 26. ágúst 2014, gert að sæta farbanni til 16. september 2014 og hefur síðan sætt farbanni óslitið frá þeim tíma.

 Með dómi Hæstaréttar þann 20. maí 2010 var Jón Sverrir dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði fyrir að hafa í nokkur skipti tælt dreng meðan hann var á aldrinum 13-15 ára til kynmaka með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans, reynsluleysi hans af kynlífi og tölvufíkn.

Jón Sverrir fékk reynslulausn 7. desember 2012 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 420 dögum. Þeir dagar eru inni í refsingu hans nú og er allur dómurinn óskilorðsbundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert