Vildu kaupa lén Ríkis íslams

Skjáskot af síðunni.
Skjáskot af síðunni. Skjáskot

Tvö íslensk lén, sem aðilar tengdir hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams keyptu á síðasta ári og tengdu við vefsíðu með fréttum af samtökunum og þar á meðal aftökum, eru ekki lengur skráð samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins ISNIC sem sér um skráningu léna á Íslandi.

Mikil fjölmiðlaumfjöllun og umræða varð hér á landi síðasta haust þegar upplýst var að lénin, Khilafah.is og Khilafa.is, væru notuð til þess að koma á framfæri upplýsingum frá Ríki íslams, en Khilafah þýðir kalífadæmi. Samtökin lýstu því yfir á síðasta ári að þau hefðu stofnað slíkt ríki á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak. Ástæðan fyrir valinu á íslenskum lénum var væntanlega sú að á ensku nefnist Ríki íslams Islamic State eða IS. 

Málinu lauk með því að ISNIC lokaði lénunum með vísan í reglur fyrirtækisins og íslensk lög en áður höfðu íslensk vefhýsingarfyrirtæki hætt að hýsa vefsíðuna á sömu forsendum. Vefsíðan var í kjölfarið hýst erlendis og síðan flutt undir erlent lén. Lénin voru skráð á Azym Abdullah sem sagður var til heimilis á Nýja Sjálandi. Heimilisfangið sem gefið var upp var hins vegar rakið til öryggishólfs þar í landi sem skráð var á annan einstakling. Síðar var skráningu lénanna breytt eftir að þeim var lokað. Sami maður var skráður fyrir þeim en heimilisfang hans sagt í Bretlandi.

Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC, segir aðspurður í samtali við mbl.is að lénin hafi væntanlega afskráðst vegna þess að ekki hafi verið greitt af þeim innan tilskilins tíma. Spurður hvort einhverjir eftirmálar hafi orðið vegna málsins gagnvart fyrirtækinu segir hann svo ekki hafa verið af hálfu þeirra sem hafi keypt lénin.

Hins vegar hafi verið nokkuð um að lénum væri sagt upp í kjölfarið. Þá hafi ýmsir sett sig í samband við ISNIC í kjölfar málsins og viljað kaupa lénin tvö. Væntanlega einhverjir sem hafi viljað virkja áhugann á þeim og beina umferð um þau til dæmis á auglýsingar eða vefsíður. Spurning væri þó hvort sá áhugi væri enn fyrir hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert