800 milljónir í viðhald

Flest átaksverkefnanna eru vegna viðhalds á skóla- og frístundamannvirkjum.
Flest átaksverkefnanna eru vegna viðhalds á skóla- og frístundamannvirkjum. mynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg mun innan tíðar bjóða út ýmis stærri viðhaldsverkefni í fasteignum borgarinnar. Áætlunin var kynnt í borgarráði í dag. Verja á 800 milljónum króna til 355 verkefna í 170 fasteignum borgarinnar. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni. Þar segir ennfremur, að þetta sé annað árið í röð sem 800 milljónum sé bætt við hefðbundið viðhald með sérstakri fjárveitingu á fjárfestingaáætlun.

Fram kemur, að flest átaksverkefnanna séu viðhald skóla- og frístundamannvirkja, en til þeirra fara 688 milljónir enda séu þar flest og stærstu mannvirkin.  Sérstök áhersla er lögð á regnþéttingu ytra byrðis fasteigna og er það framhald verkefna sem unnið var að á síðasta ári. Einnig verður lögð áhersla á málun innanhúss.

Þá segir, að meðal helstu verkefna séu endurgerð þaks Austurbæjarskóla, ný utanhússklæðning Árbæjarskóla, þakviðgerðir og ýmsar endurbætur á Breiðholtsskóla, endurnýjun þaka og  þakglugga á Hagaskóla og í Hlíðaskóla hefst 1. áfangi í endurgerð kennslustofa.  Þá verður útveggjaklæðning á Ingunnarskóla endurbætt, þök verða endurnýjuð á leikskólunum Nóaborg, Fálkaborg og Mýri.  Jafnframt verða ýmis konar endurbætur gerðar utanhúss á leikskólunum Arnarborg og Bakkaborg.  Þá verður ytra byrði Ráðhússins háþrýstiþvegið og sílanbaðað. 

Í mörgum fasteignum verða gerðar ýmsar endurbætur vegna eldvarna og víða verða brunaviðvörunarkerfi endurnýjuð. Loftræsikerfi verða víða endurbætt eða endurnýjuð.

Um helgina verður auglýst eftir verktökum sem vilja vera á lista Reykjavíkurborgar þegar einstaka verkþættir eru boðnir út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert