Gerir margvíslegar athugasemdir

Merki Persónuverndar.
Merki Persónuverndar.

Ítarlegri ákvæði um heimildir til notkunar kennitölu skortir í frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands. Þá þarf að setja ítarlegri ákvæði um notkun þjóðskrár í markaðssetningartillgangi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Persónuverndar um frumvarpið.

Þar segir m.a. að kennitölunotkun á Íslandi sé mun algengari en annars staðar í heiminum og það sé mat Persónuverndar að skýra þurfi í lögum um Þjóðskrá Íslands „í hvaða tilvikum, sem og í hvaða tilgangi, heimilt sé að nota kennitölu einstaklinga“.

„Sérstök rök standa til þess að kennitölur einstaklinga skuli njóta lagaverndar, annars vegar þar sem að þær auðvelda gerð gagnasafna um einstaklinga og hvers kyns samkeyrslu og hins vegar að þær geta nýst sem lykill að margs konar skrám, þ. á m. þeim sem hafa að geyma upplýsingar um einstaklinga sem eru viðkvæms eðlis,“ segir í umsögninni.

Þar segir einnig að í frumvarpinu sé hvergi að finna ákvæði um notkun þjóðskrár í markaðssetningartilgangi. Persónuvernd gerir einnig athugasemdir við ákvæði um afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá, en þar sé ekki að finna lögmæltar viðmiðanir um hvaða persónuupplýsingum sé heimilt að miðla úr skránni, til hverra né í hvaða tilgangi.

„Þótt ætlast sé til að Þjóðskrá Íslands setji nánari skilmála í þessu tilliti skortir hér á að mati Persónuverndar að þessara atriða verði getið með skýrari hætti í texta frumvarpsins, og varasamt sé að framselja Þjóðskrá Íslands óskorað vald til að ákveða hvaða upplýsingum er miðlað eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Persónuvernd segir jafnframt að í frumvarpið vanti almenna tilvísun til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá er tekið fram í formála að ábendingum Persónuverndar að stofnunin hafi ekki getað gert ítarlega grein fyrir öllum athugsemdum sem hún hefði kosið að koma á framfæri vegna skamms svarfrests.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert