Dæmdur fyrir að nauðga 14 ára stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þrítugan karlmann í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku. Þá er honum gert að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur. Einn dómara skilaði séráliti og vildi sýkna manninn. 

Maðurinn, Ingvar Dór Birgisson, var dæmdur fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn stúlkunni á tímabilinu mars til apríl 2010, á þáverandi heimili hans í Reykjavík. Hann var sakfelldur fyrir að hafa í fyrra skiptið áreitt stúlkuna kynferðislega með því að hafa kysst hana, strokið maga hennar innan klæða, reynt að strjúka brjóst hennar innan klæða, strokið líkama hennar utan klæða og leitað eftir kynferðislegu samneyti við hana.

Þá var hann sakfelldur yfir að hafa í seinna skiptið nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar og það að hún var ein með honum fjarri öðrum, ýtt henni á rúmið sitt og haft við hana samræði um leggöng og ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir að stúlkan bæði hann ítrekað um að hætta og segði honum að hann væri að meiða sig.

Ingvar Dór hefur ekki sætt refsingu áður. Í niðurstöðu dómsins segir að brot hans sé alvarlegt og hafi valdið stúlkunni mikilli vanlíðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert