Smelludólgar og Gnarrenburg

Kristján Gauti Karlsson
Kristján Gauti Karlsson Reykhólavefurinn

Lokaverkefni Kristjáns Gauta Karlssonar í íslensku við Háskóla Íslands fjallar um orðmyndunaraðferðir í íslensku slangri. Dæmi um nýleg slangurorð eru smelludólgur, nammviskubit, Gnarrenburg og veiðigalli.

Kristján Gauti Karlsson á Kambi í Reykhólasveit byrjaði fyrir réttum mánuði sem blaðamaður á vikublaðinu Skessuhorni á Akranesi og fréttavef þess. Hann er þar í sextíu prósent starfi til vors, samhliða vinnu við lokaverkefni til BA-prófs, og verður síðan í fullu starfi á Skessuhorni í sumar. Rætt er við hann á Reykhólavefnum fyrr í vikunni.

Stundum vinnur slangrið sér fastan sess og lifir áfram, líkt og „dægurlög“ sem eru vinsæl um tíma og gleymast svo flestum þó að sum lifi áfram. Dæmi um dægurlag sem lifir enn í dag (sumsé fyrrverandi dægurlag) er Litla flugan, sem Sigfús Halldórsson tónskáld samdi á Reykhólum fyrir hartnær 65 árum.

„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt viðfangsefni,“ segir Kristján Gauti. „Oft fylgja slangrinu einhverjir orðaleikir, glens og grín.“ Lokaritgerðin er það eina sem Gauti á eftir að klára til BA-prófsins.

Aðspurður um helstu áhugamál nefnir Gauti tónlist og hljóðfæraleik, lagasmíðar og textasmíðar, íþróttir, kvikmyndir og íslenskt mál. „Ég grúska gjarnan í sagnfræði og hef gaman af alls kyns fánýtum fróðleik. Ég les greinar sem ég finn á netinu og glugga í bækur þegar mér dettur það í hug, bara það sem vekur áhuga hverju sinni.“ Í þessum efnum lýkur Gauti sérstöku lofsorði á Wikipedíu.

Viðtalið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert