Skólarnir fyrstir á dagskrá

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði og landlæknir undirrituðu samstarfssamning í dag.
Bæjarstjórinn í Hafnarfirði og landlæknir undirrituðu samstarfssamning í dag. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Hafnarfjörður hefur gerst formlegur aðili að verkefninu Heilsueflandi samfélag, en Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri og Birgir Jakobsson landlæknir undirrituðu samstarfssamning í dag.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að í verkefninu sé lögð áhersla á að vinna með fjóra meginþætti: Hreyfingu, næringu, líðan og lífsgæði.

„Þetta er spennandi verkefni sem miðar að því að efla lýðheilsu og lífsgæði íbúa Hafnarfjarðarbæjar með markvissum þverfaglegum heilsueflingaraðgerðum fyrir alla íbúa bæjarins,“ er haft eftir Haraldi í tilkynningunni.

Þar segir einnig að fyrsta skrefið verði að fá þá skóla í Hafnarfirði sem ekki eru skráðir í verkefnið Heilsueflandi skólar til að skrá sig og verða virkir í því.

„Haldinn verður fundur  með skólasamfélaginu í Hafnarfirði þar sem fulltrúar þeirra skóla í bænum sem hafa verið að vinna að verkefninu Heilsueflandi skóli munu kynna þá vinnu sem þeir hafa þegar lagt í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert