Það getur verið gott að vera kjalfróður

Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á …
Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á bókamarkaðinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Maður má ekki láta kjölinn blekkja sig,“ segir Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður þar sem hún grúskar í bókum með Arnljóti Sigurðssyni tónlistarmanni. Þau eru bæði miklir bókaormar og tóku því fagnandi að fara með blaðamanni á Bókamarkaðinn í Laugardalnum sem nú stendur yfir og völdu sér tíu bækur hvor. Valið var fjölbreytt, m.a þjóðlegur fróðleikur, ljóð, vampírubók.

Ég var sem lömuð þegar ég las Elsku Míó minn, eftir Astrid Lindgren þegar ég var níu ára, sú bók heltók mig,“ segir Eva María þegar hún er spurð að því hvaða bók hafi fyrst snert við sálu hennar. Arnljótur tekur undir það og segist muna vel eftir þeirri bók frá bernskuárunum.

Arnljótur segist ekki lesa mikið af skáldsögum núorðið, hann lesi frekar fræðibækur, ljóð, skákbækur, Eddukvæði og bækur um sérhæfð efni sem tengjast áhugamálum hans, eðlisfræði og alheiminn og um tónlistarfólk, enda er hann tónlistarmaður og í gær sendi hann frá sér sólóhljómplötu sem heitir Til einskis, og inniheldur hún melódíska raftónlist.

„Ég las miklu meira af skáldsögum þegar ég var krakki, en nú vil ég lesa styttri texta, það síðasta sem ég las var Manntafl eftir Stefan Zweig. Ég er líka hrifinn af ljóðum, ég datt inn í Grím Thomsen í fyrra, hann er dramatískur og orðfæri hans hrjúft og kalt.“

Foreldrar skálduðu sögur

Fyrsta bókin sem Eva velur sér er bók um fótboltamanninn Luis Suares.

„Ég vil lesa allt um fólk sem bítur aðra í eyrun,“ segir Eva og hlær en bókina ætlar hún öðrum fjölskyldumeðlimum sem hafa mikinn fótboltaáhuga. Hún dvelur lengi við barnabækurnar enda gríðarlegt úrval af barnabókum á markaðinum og mörg börn á hennar heimili.

„Sigríður yngsta dóttir mín er að verða fimm ára og mér sýnist þetta vera bók sem hún gæti haft gaman af,“ segir Eva og setur í körfuna bókina Orkídeur og ævintýri orðanna, eftir Svanhvíti Magnúsdóttur. Og hún bætir tveimur barnabókum í viðbót í körfuna fyrir eldri börnin, Maximús músíkús bjargar ballettinum valdi hún handa miðjustúlkunum; og eina stóra vampírufræðibók fyrir þær eldri.

Arnljótur segir að foreldrar hans hafi skáldað sögur fyrir þau systkinin fyrir svefninn þegar þau voru lítil. „Það var líka mikið lesið í Melaskóla þegar ég var þar, bæði í frímínútum og kaffitímum. Og ég lá mikið í alfræðibókum þegar ég var strákur.“

Þau Eva og Arnljótur staldra lengi við í heldra horninu, þar sem er að finna sjöþúsund bókatitla frá fornbókabúðinni Bókinni.

Eva velur sér þar bókina Mannbætur frá 1948 og grípur niður í hana:

„Náin kynni hnattbúa hafa birt þau sannindi að manneðli er allstaðar sjálfu sér líkt, eðlismunur kynþátta er hverfandi í samanburði við útlitsmuninn.“

Arnljótur velur sér í heldra horni gamalla bóka Framnýal eftir Helga Pétursson sálarrannsóknamann.

„Helgi fæddist seint á nítjándu öld og hann veltir steinum og er með allskonar skemmtilegar pælingar, en sumt af því er á tæpasta vaði. Ég á aðra nýalsbók eftir hann sem er árituð, svo ég verð að bæta þessari við.“

Það er í anda tónlistarmannsins Arnljóts að kjósa sér bókina Ævisaga Beethovens, í fornu bókunum í heldra horninu og einnig bók sem heitir Æskuár mín á Grænlandi, frá 1925, sem er þýdd bók.

„Ég er alltaf á leiðinni til Grænlands með Hrafni Jökulssyni skákmanni og vini mínum, það verður gaman að glugga í þessa bók.“

Við tannpínu skal leggja við tönn úr dauðum manni

Eva velur sér eina bók í viðbót í heldra horni, Ljóðmæli eftir Stefán Ólafsson, og segir í framhaldinu að hún verði síðar á ævinni að læra bókband til að geta bundið þá bók inn sem og aðrar óinnbundnar sem hún á.

Hún segist ekki geta sleppt því að velja Sigurðarsögu þögla, í erlendri útgáfu, þegar hún rekst á hana eftir að við hverfum frá heldra horninu. Auk þess finnur hún bókina Latína á Íslandi og skellir henni í körfuna, enda hefur Eva verið að læra latínu. Ljóðasafn Sigfúsar Daðasonar finnst henni gulli betri og ævintýrasafnið Sagan upp á hvern mann, sem Rósa Þorsteinsdóttir skráði, ratar í bunkann hennar.

Tónlistarmaðurinn Arnljótur verður kátur mjög þegar hann finnur Íslensk þjóðlög Bjarna Þorsteinssonar, með nótum og hvaðeina.

„Bjarni er magnaður og ótrúlegt starf sem hann vann. Ég á ævisöguna hans svo það er frábært að bæta þessari bók við. Og svo fann ég Orkneyskar þjóðsögur, það er mjög eiguleg bók. Ég get ég ekki látið framhjá mér fara Íslenska þjóðhætti eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili,“ segir Arnljótur og grípur niður í bókinni þar sem gefin eru nokkur ráð við tannpínu: Taka skal tönn úr mús og stanga við tönnina; leggja við tönnina saur úr ársgömlu sveinbarni; leggja við tönn úr dauðum manni.“

Bókarölt er á enda og allir halda heim með tilhlökkun, enda er það skemmtun góð að blaða í bókum.

Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á …
Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á bókamarkaðinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á …
Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á bókamarkaðinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á …
Eva María Jónsdóttir og Arnljótur Sigurðsson fóru með blaðamanni á bókamarkaðinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert