Ríki íslams á njala.is?

mbl.is/skjáskot

Svo virðist sem tölvuþrjótar hafi tekið yfir heimasíðu Sögusetursins á Hvolsvelli, njala.is, en á forsíðu vefsvæðisins er að finna skilaboð um að síðan hafi verið „hökkuð“ af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.

„Við erum alls staðar ;),“ segir á vefsíðunni á ensku, en þegar síðan er heimsótt glymur við tónlist á arabískri eða áþekkri tungu. Þá er einnig að finna í skilaboðum tölvuþrjótanna vefslóð á Facebook-síðu, sem virðist vera óvirk.

Stundin sagði fyrst frá málinu

Uppfært kl. 15.38:

Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitarstjóra Rangárþings eystra, var ekki kunnugt um málið þegar mbl.is ræddi við hann rétt í þessu, en hann heimsótti njala.is um miðjan dag í gær og þá var allt með felldu á heimasíðunni.

Ekki hefur náðst í forstöðumann Sögusetursins.

Uppfært kl. 16.08:

„Það sem ég mun gera næst er náttúrlega í fyrsta lagi að reyna að koma þessu út af síðunni, og fá þá aðstoð til þess, tilkynna þeim sem ég er með síðuna hjá, hýsingaraðilanum, að þetta hafi gerst, og væntanlega þarf ég af fá aðstoð viðkomandi til að koma þessu út.“

Þetta segir Sigurður Hróarsson, forstöðumaður Sögusetursins á Hvolsvelli, um skilaboðin sem nú blasa við á njala.is. Hann heyrði fyrst af málinu þegar fjölmiðlar fóru að spyrjast fyrir um það fyrir stundu.

„Sögusetrið er opið en ég var að vinna í öðru og hef ekki kíkta á síðuna í dag,“ segir Sigurður. „En við kíktum á hana í gær og þá var þetta nú ekki, þannig að þetta hefur komið á hana í dag.“

Sigurður segir að svo virðist sem starfsmenn safnsins munu ekki ráða við að taka skilaboðin út af síðunni.

„Það er ekki hægt að klikka þarna á neitt eða gera neitt, þannig að okkur sýnist ekki að við munum ráða við að koma þessu út. En ef það er ekki þá munum við náttúrulega leita strax til einhverrar sérfræðiþjónustu, hvort sem það er hýsingaraðilinn eða önnur tækniaðstoð. Það er auðvitað númer eitt hjá okkur að hreinsa okkar síðu af þessum óþverra,“ segir hann.

En hyggst hann leita til lögreglu?

„Ég er bara ekki búinn að gera það uppi við mig, þ.e.a.s. ég ætla að leita mér upplýsinga um hvort ástæða sé til þess,“ segir hann.

Uppfært kl. 16.11:

Búið er að loka síðunni njala.is.

Uppfært kl. 16.15:

Og það er búið að opna hana aftur, að því er virðist í upprunalegu ástandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert