Sólmyrkvi er furðuleg lífsreynsla

Hámark deildarmyrkva 20. mars 2015.
Hámark deildarmyrkva 20. mars 2015. Mynd: Gunnlaugur Björnsson/Hermann Hafsteinsson/Stjörnufræðivefurinn

Sólmyrkvi verður eftir rétta viku, föstudaginn 20. mars. Það verður mesti sólmyrkvi sem orðið hefur á Íslandi í 61 ár.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og ritstjóri Stjörnufræðivefsins, sagði að sólmyrkvans myndi gæta í um tvær klukkustundir hér á landi. Hann mun óvíða sjást jafn vel frá landi og hér.

Nauðsynlegt er að nota hlífðarbúnað, sólmyrkvagleraugu eða sólmyrkvasíur, fyrir augun ætli fólk að fylgjast með sólmyrkvanum.

Sólmyrkvinn hefst í Reykjavík klukkan 08.38 á föstudagsmorgun. Hann nær hámarki kl. 09.37 og lýkur kl. 10.39. Annars staðar á landinu getur munað einni til tveimur mínútum frá þessum tímasetningum vegna snúnings jarðar, snúnings tunglsins og staðsetningar frá almyrkvaslóðinni sem skuggi tunglsins varpar á yfirborð jarðar. Þegar sólmyrkvinn verður í hámarki mun tunglið hylja 97,5% af skífu sólarinnar frá Reykjavík séð. Á Ísafirði mun tunglið hylja 96,4% af skífu sólar, á Akureyri hylur það 97,8% af skífu sólar, á Norðfirði 99,4% og við Hótel Rangá á Suðurlandi hylur það 98,1% af skífu sólar. Nánar er hægt að fræðast um sólmyrkvann á Stjörnufræðivefnum (www.stjornufraedi.is).

„Allir Íslendingar eiga að geta séð þegar tunglið fer að naga í sólina og færast yfir hana,“ sagði Sævar. Það verður að sjálfsögðu háð því að það sjáist til sólar. „Þegar myrkvinn nær hámarki dimmir örlítið hjá okkur um hábjartan daginn. Fólk mun alveg taka eftir því. Það er mjög furðulegt að upplifa það.“

Þar sem tunglið hylur alla sólskífuna verður almyrkvi. Ferill hans liggur að mestu yfir hafi en fer einnig í gegnum Færeyjar og Svalbarða og upp á Norðurpól. Almyrkvans mun gæta um 70 km austur af Íslandi. Til að sjá hann þarf fólk annaðhvort að vera um borð í skipi eða flugvél og skýrir það mikinn áhuga á ferðum með flugvélum og skipum um almyrkvaða svæðið. Sævar fékk upplýsingar um það hjá Isavia að um 20 flugvélar muni fljúga eftir almyrkvaslóðinni.

 Hvað er sólmyrkvi?

Sólmyrkvi verður þegar tunglið fer á milli sólar og jarðar þannig að það varpar skugga á jörðina og sólin myrkvast að hluta eða í heild frá jörðu séð. Frá jörðu séð eru tunglið og sólin álíka stór, þótt sólin sé um 400 sinnum stærri en tunglið. Ástæðan er sú að sólin er um 400 sinnum lengra frá jörðu en tunglið.

Hylji tunglið alla sólina er talað um almyrkva, en deildarmyrkva þegar skífa sólarinnar hylst að hluta. Við hringmyrkva fer tunglið fyrir sólina, en er það langt frá jörðu að það nær ekki að myrkva alla skífu sólar. Sólmyrkvar verða einungis þegar jörðin, tunglið og sólin eru í beinni línu. Þeir geta því aðeins orðið þegar tungl er nýtt.

Almyrkvi verður næst 12. ágúst 2026 og nær slóð hans í gegnum Reykjavík. Svo þarf að bíða til ársins 2196 eftir þar næsta almyrkva hér.

Á Stjörnufræðivefnum er hægt að skoða ótrúlega flott myndskeið af sólmyrkvanum

 Myndskeið af sólmyrkvanum 

Skýringarmynd af sólmyrkva
Skýringarmynd af sólmyrkva Stjörnufræðivefurinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert