Pissaði yfir í annað land

Hafberg Þórisson eigandi Lambhaga.
Hafberg Þórisson eigandi Lambhaga. Árni Sæberg

„Ég þurfti að kasta af mér vatni og eins og góðra garðyrkjumanna er siður leitaði ég uppi eina tréð í Sinai-eyðimörkinni og pissaði á það. Varð á meðan var við dróna í loftinu fyrir ofan mig. Ekki leið á löngu þar til hermenn leituðu mig uppi og spurðu mig spjörunum úr. Eftir að ég hafði útskýrt málið skildum við sáttir en í ljós kom að ég hafði pissað yfir í annað ríki. Tréð stóð nefnilega ekki í Ísrael, heldur Jórdaníu.“

Þessa sögu rifjar Hafberg Þórisson, eigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga, upp í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina. Hann hefur nokkrum sinnum komið til Ísrael eftir að hann kynntist fyrir tilvikjun Eliezer Moodi Sandberg, fyrrverandi ráðherra í Ísrael. Sá ágæti maður bankaði upp á hjá honum einn daginn og óskaði eftir að fá að skoða gróðrarstöðina.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Lambhaga en verið er að taka í notkun hátæknilegar nýbyggingar sem auka munu framleiðslugetu stöðvarinnar til muna, úr 225 tonnum af salati í fyrra í tæp 500 tonn á næsta ári.

Í samtalinu hermir Hafberg einnig af Kínaævintýri sínu en fyrir fáeinum árum stóð honum til boða að  taka við gríðarlegri ræktun þar um slóðir.

„Þeir vildu fá mig til að stjórna ræktun hjá sér á tuttugu sinnum hundrað hekturum. Ég er með 1,3 hektara hér heima. Áætlunin hljóðaði upp á þrjá og svo einhverja súpu af núllum. Ég hef aldrei séð aðra eins tölu á blaði. Ég kvaðst enginn maður í þetta en Kínverjar eru einkennilega ákveðið fólk og gáfu sig hvergi. Spurðu hvað ég væri með mörg hús á Íslandi. Tuttugu, sagði ég, og taldi þá hvert einasta kofaræksni á landareigninni. Það var lítið mál, ég fengi tuttugu hús hjá þeim líka. Mér tókst á endanum að sannfæra þá um að þetta snerist ekki um húsakost, ég væri glaður með mitt heima á Íslandi. Þeir féllust á það.“

mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert