Dagur flytur í Árbæ

Ljósmynd/ Baldur Kristjánsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur flutt skrifstofu sína tímabundið í Árbæinn. Skrifstofa borgarstjóra verður í Árseli í hjarta hverfisins út þessa viku. Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að borgarstjóri muni funda með starfsfólki stofnana Reykjavíkurborgar í Árbæ og heimsækja fyrirtæki í hverfinu. Hyggst borgarstjórinn meðal annars koma við í Árbæjarlaug og eiga fund með sínu gamla íþróttafélagi Fylki. 

Á morgun þriðjudag hefur verið boðað til opins hverfafundar með íbúum í Árbæ. Fundurinn verður í Árbæjarskóla þriðjudaginn 24. mars kl. 20.00. Til umræðu á fundinum verður allt sem tengist hverfinu, framkvæmdir, þjónustukannanir og hverfisskipulag sem er ný skipulagsáætlun fyrir öll hverfi Reykjavíkur. Hverfisskipulaginu er ætlað að auðvelda skipulag, áætlanagerð og hvetja fólk til að hafa aukin áhrif á hverfið sitt.

Er þetta fyrsti hverfafundurinn sem borgarstjóri heldur en hann verður með opna fundi í öllum hverfum borgarinnar á næstu misserum. Borgarráð mun síðan funda í Árbæ á fimmtudag í tilefni af heimsókn borgarstjóra í hverfið.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert