Reynir og DV sýknað af ærumeiðingum

Reynir Traustason, fyrrverandi ristjóri DV.
Reynir Traustason, fyrrverandi ristjóri DV. mbl.is/Ómar

Hæstiréttur hefur sýknað DV og Reyni Traustason, fyrrverandi ritstjóra blaðsins, af kröfum Söru Lindar Guðbergsdóttur sem krafðist miskabóta vegna ærumeiðandi umfjöllunar. Hæstiréttur segir að ummælin sem Sara vildi láta ómerkja hafi ekki verið móðgandi í ljósi tilefnisins að baki skrifunum.

Þrír dómarar dæmdu í málinu. Þeir töldu að meginefni greinarinnar sem um var deilt hefði varðað ráðningu Söru í starf yfirmanns hjá VR, stærsta stéttarfélagi landsins, og hefði umfjöllun um það efni átt erindi til almennings. Var talið að Sara yrði af þeim sökum að þola að einkamálefni hennar hefðu verið gerð að umtalsefni í fjölmiðli að því marki sem þau tengdust ráðningu í þetta starf.

Hæstiréttur vísaði til þess að við úrlausn málsins yrði að virða fyrirsagnir, sem dómkröfur Söru sneru að, í samhengi við greinina og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli, sem Sara teldi fela í sér meiðyrði í sinn garð. Taldi rétturinn að þau ummæli, sem fram komu í fyrirsögnunum tveimur á forsíðu blaðsins, gætu ekki talist móðgandi í garð Söru þegar virt væru í heild ummælin, samhengi þeirra við önnur ummæli á forsíðu blaðsins og ummæli á innsíðum þess og að það, sem sagt var, var rétt.

Taldi ummælin ærumeiðandi í sinn garð

Sara Lind, sem í dag er eiginkona Stefáns Einars Stefánssonar, fyrrverandi formanns VR, höfðaði í apríl 2013 mál á hendur fréttastjóra DV, ritstjóra þess og útgefanda, þeim Inga Frey Vilhjálmssyni, Reyni og DV ehf., vegna ummæla sem birt voru á forsíðu og innsíðum blaðsins svo og á vefmiðli þess og Sara taldi ærumeiðandi í sinn garð.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að á forsíðu DV, sem kom út 3. desember 2012, hafi verið stór ljósmynd af Stefáni og felld inn í hana minni ljósmynd af Söru í hjartalaga ramma, en við hlið myndanna og neðan við þær stóð eftirfarandi: „Stefán Einar formaður VR“, „Ólga vegna ástkonu“, „Laganemi gerður að yfirmanni“, „Sara býr með formanninum“ og „400 umsækjendur um 3 störf“. Þar voru jafnframt orðin „Sara Lind er sambýliskona mín“, sem virðast hafa átt að vera höfð eftir Stefáni. Á innsíðum blaðsins birtist grein með fyrirsögninni: „Ráðningarferli hjá VR sviðsett“ og undirfyrirsögnunum: „Laganemi ráðinn í yfirmannsstöðu hjá VR“ og „Er orðin sambýliskona formannsins“. Greinin var merkt fréttastjóra blaðsins, Inga Frey, en á þessum tíma var Reynir ritstjóri þess og DV ehf. útgefandi.

Sara taldi hluta af þessum fyrirsögnum fela í sér ærumeiðingar í sinn garð, nánar tiltekið ummælin á forsíðu um ólgu vegna ástkonu, ummælin á forsíðu og innsíðu um laganema, sem hafi verið gerður að yfirmanni, og ummælin á innsíðu um að ráðningarferli hjá VR hafi verið sviðsett. Sara höfðaði mál þetta á hendur Reyni, DV og Inga Frey með í apríl 2013 og sneru dómkröfur hennar að síðastnefndum ummælum í fyrirsögnum, en jafnframt að tilteknum ummælum í greininni á innsíðum blaðsins.

Reyni og DV gert að greiða bætur í héraði

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í mars í fyrra kröfum Söru um annað en tvenn ummæli sem birtust í fyrirsögnum á forsíðu DV. Voru ummælin, sem ómerkt voru, talin á ábyrgð Reynis og var Ingi því sýknaður af kröfum Söru. Þeim Reyni og DV ehf. var hins vegar sameiginlega gert að greiða Söru 300.000 kr. óskipt í bætur. Reyni var gert að kosta birtingu héraðsdómsins í dagblaði, samtals um 622.000 kr. og DV  til að birta forsendur hans og dómsorð í blaðinu og á vefmiðli þess að viðlögðum dagsektum.

Reynir og DV áfrýjuðu héraðsdóminum til Hæstaréttar.

Eins og málið lá fyrir Hæstarétti voru aðeins til úrlausnar dómkröfur Söru, sem varða tvær fyrirsagnir á forsíðu DV 3. desember 2012, þar sem sagði annars vegar: „Ólga vegna ástkonu“ og hins vegar: „Laganemi gerður að yfirmanni“.

Hæstiréttur segir, að við úrlausn málsins verði að virða þessar fyrirsagnir í samhengi við greinina á innsíðu blaðsins og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli, sem Sara telur fela í sér meiðyrði í sinn garð.

Meta þarf ummælin í samhengi og í heild

„Að því er varðar fyrri ummælin er þess að geta að í íslenskri orðabók Menningarsjóðs er orðið „ástkona“ skýrt sem „ástmær kvænts manns, frilla“. Í íslenskri samheitaorðabók er sama orð á hinn bóginn skýrt sem „ástmey, ástmær, ástvina, elskandi, frilla, fylgikona, kærasta“. Af þessu sést glöggt að orð þetta hefur ekki einhlíta merkingu. Til þess verður að líta að á sömu forsíðu var jafnframt að finna tvær aðrar undirfyrirsagnir, þar sem sagði efnislega að stefnda byggi með formanni VR og haft var eftir honum að stefnda væri sambýliskona sín. Í ljósi samhengis allra þessara ummæla verður að líta svo á að með orðinu „ástkona“ í fyrirsögninni hafi verið vísað til þess að stefnda og formaðurinn væru í sambúð. Óumdeilt er að það hafi verið rétt,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Um síðari ummælin sé þess að gæta að þótt Sara hafi lokið BA prófi í lögfræði á árinu 2010 hafi hún lagt stund á meistaranám í sömu grein á þeim tíma, sem hún var ráðin í starfið, og hafi lokið því haustið 2012. Með réttu hafi því mátt nefna hana laganema.

„Að þessu virtu var það rétt sem sagði í þessum fyrirsögnum. Í greininni á innsíðum blaðsins kom meðal annars fram að fjöldi annarra manna hefði sótt um starfið, sem stefnda fékk, svo og að starfsreynsla hennar væri takmörkuð, sem væri eðlilegt í ljósi ungs aldurs hennar. Þar komu einnig fram þær skýringar, sem formaður VR og framkvæmdastjóri höfðu veitt blaðinu um forsendur ráðningarinnar. Þegar þetta er metið í heild geta ummælin, sem komu fram í fyrirsögnunum á forsíðu blaðsins, ekki talist móðgandi í garð stefndu í ljósi tilefnisins að baki skrifunum,“ segir Hæstiréttur í dómi sínum. 

 

mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert