Aldrei séð eftir því að hafa kvatt stjórnmálin

Ingibjörg Sólrún með nemendum sem útskrifast höfðu úr námi í …
Ingibjörg Sólrún með nemendum sem útskrifast höfðu úr námi í ensku og tölvunotkun sem UN Women bauð upp á í nokkrum héruðum Afganistan til að gera ungum stúlkum auðveldara að fá vinnu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist skynja það sterkt í dag hve mikinn afslátt hún gaf af lífsgæðum sínum með því að vera opinber persóna á Íslandi í nærri þrjá áratugi en liðin eru sex ár síðan hún kvaddi íslenska pólitík.

Hún segir að það hafi verið til mikilla óheilla að sækja mál fyrir Landsdómi og það sitji eins og fleinn í holdi margra þeirra sem áttu hlut í máli; hvort tveggja þeirra sem stóðu að ákærunni og þeirra sem sátu á sakamannabekknum.

Í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins í dag ræðir hún um nýja kaflann í lífinu, vistina í Kabúl og Istanbúl, Ísland og íslam, og vankantana á íslenskri stjórnmálamenningu sem svo brýnt sé að lagfæra.

Hún segir meðal annars frá því þegar hún kom til Kabúl í nóvember 2011 og stýrði þar starfi UN Women í tvö ár. Ingibjörg lýsir vistinni þannig að hún hafi hvorki verið auðveld né erfið.

„Allar alþjóðastofnanir og starfsmenn þeirra voru í húsaþyrpingu á víggirtu svæði. Þetta var eins og herstöð og minnti mig helst á herstöðina í Keflavík meðan hún var og hét. Þarna býr fólk og starfar og það er séð fyrir flestum hlutum, en ekki í myndinni að fara út fyrir þetta svæði nema í brynvörðum bíl. Einn ágætur indverskur kunningi minn sagði að hann héldi að svona væri vistin í skandinavísku fangelsi. Það fór ágætlega um fólk, allir með sínar prívat vistarverur en það fór enginn út fyrir svæðið að tilefnislausu.“

Í tengslum við umræðu um byggingu mosku á Íslandi segir hún enga ástæðu til að hafa áhyggjur af byggingu hennar í Reykjavík. Á ferðum sínum hefur Ingibjörg ekki kynnst öðru en að þorri múslima sé gott og friðelskandi fólk.

„En eins og hjá öllum samfélagshópum er misjafn sauður í mörgu fé og róttækur íslamismi er vissulega mjög hættulegurog skaðlegur og þarf að reyna að koma í veg fyrir að hann berist til Íslands.“

Þannig segir Ingbjörg það fráleita hugmynd að Sádi-Arabía fái að setja fjármagn í byggingu mosku í Reykjavík. „Til að reyna að sporna við því að róttækur íslamismi berist til okkar ættum við ekki að heimila að erlendir aðilar fjármagni moskubygginguna.“

Ingibjörg leggur áherslu á rétt fólks til að iðka sína trú. „Við eigum að virða þann rétt og ekki gera trúariðkun fólks tortryggilega, en við eigum ekki heldur að samþykkja það að fram fari neins konar hatursáróður í nafni trúarinnar, eða að á Íslandi taki sér bólfestu skoðanahópar sem ala á andúð í garð þeirra sem ekki samsinna þeim. Það á jafnt við um öfgasinnaða kristna þjóðernissinna og öfgasinnaða múslima. Ég geri þar engan greinarmun á.“

Hún segir jafnframt að „þeir sem eru í forystu í íslenskum stjórnmálum – og þá á ég við alla þá sem sitja á Alþingi – ættu að leggja sig fram um að standa fyrir upplýstri pólitískri umræðu og reyna að koma hugsjónum sínum og hugmyndum á framfæri við umbjóðendur sína. Þeir skulda kjósendum sínum það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert