Gestir taka virkan þátt á páskavöku

Ljósmynd/Þorgrímur Daníelsson

Hin árlega páskavaka á Grenjaðarstað í Aðaldal var haldin í nótt. Að sögn sóknarprestsins Þorgríms Daníelssonar er með páskavöku undirstrikuð sú gleði sem stafar af sigri hins góða yfir hinu illa, sigri ljóssins yfir myrkrinu. 

Þorgrímur segir að öllum, ungum sem öldnum sé mikil þörf á því að endurvekja og hugfesta þá trú sem páskahátíðin boðar. Að hið góða í tilverunni muni sigra hið illa. Sannleikurinn muni sigra lygina. Réttlætið muni sigra ranglætið. Sátt muni sigra sundrugu og hatur og ljósið sigri myrkrið. Á eftir dimmum vetri komi sumar með blíðan blæ sem syngi eilífan siguróð lífsins í grænum stráum. „Við eigum að hugfesta, muna og trúa því að hversu sem kann að syrta, logi ávalt ljós sem aldrei slokknar.“

Páskavakan í Aðaldal krefst virkar þátttöku allra messugesta „Það er mjög hátíðleg stund á páskavöku þegar allir kirkjugestir tendra kertaljós eftir lestur páskaguðspjallsins og syngja undir kirkjuklukknahljómi,“ segir Þorgrímur. „Ungir sem aldnir taka þátt í páskavökunni, m.a. með lestrum úr Biblíunni. Áhrifaríkir og magnaðir lestrar sveitunga minna kalla fram sérstök áhrif,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert