„Í útistöðum við hálfan bæinn“

Hinir ákærðu úi málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Hinir ákærðu úi málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli

„Ég átti í útistöðum við hálfan bæinn á þessum tíma,“ sagði Ríkharð Júlíus Ríkharðsson við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hann er ákærður ásamt tveimur öðrum mönnum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, hótanir og frelsissviptingu.

Mennirnir eru sakaðir um að hafa ráðist á karlmann á barnum Monte Carlo í Reykjavík 19. desember 2010 vegna meintrar skuldar og farið síðan með hann í íbúð við Suðurhlíð þar sem líkamsmeiðingarnar hafi haldið áfram. Manninnum hafi verið haldið föngnum í íbúðinni, meðal annars kefluðum í baðkari yfir nótt þar til faðir hans greiddi mönnunum eina milljón króna í lausnargjald.

Ríkharð og meðákærðu í málinu, Davíð Fjeldsted og Magnús Sigurjón Einarsson, ítrekuðu fyrri yfirlýsingar um að þeir neituðu sök í málinu. Sögðust þeir ennfremur allir ekkert kannast við að atburðirnir sem lýst er í ákærunni, og maðurinn sem fyrir árásinni varð hefur greint frá, hafi átt sér stað. Báru þeir allir að þeir hefðu verið í mikilli neyslu á þessum tíma og myndu ekki alveg eftir honum. Aðspurðir sögðust þeir hvorki þekkja manninn sem fyrir árásinni varð eða föður hans.

Mennirnir þrír neituðu að sama skapi að hafa tekið við peningum vegna málsins. Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari spurði Ríkharð út í skýrslu sem ann gaf hjá lögreglu. Þar hafi hann viðurkennt að hafa beitt manninn ofbeldi og farið með hann í íbúðina þar sem ofbeldið hafi haldið áfram. Ennfremur að hafa tekið við peningunum sem málið snýst um.

Ríkharð gaf þá skýringu fyrir dómi að hafa viðurkennt þetta til þess að þóknast lögreglunni samkvæmt ráðgjöf frá verjanda á þeim tíma og mönnum sem gengið hefðu í gegnum hliðstæð mál. Tilgangurinn hefði verið sá að losna úr fangelsi á Litla-Hrauni þar sem hann hefði afplánað annan dóm.

Peningarnir voru lagðir inn á reikning í eigu Magnúsar. Helgi Magnús spurði hvaða skýringu hann hefði á því. Magnús sagðist ekki hafa neina skýringu á því. Honum dytti helst í hug að einhver hefði verið að nota reikninginn hans. Það væru dæmi um að fólk gerði það og hann tæki svo peningana út fyrir það. Hann teldi að það hefði gerst í þessu tifelli. Hann kannaðist ennfremur ekki við að hafa afhent meðákærðu hluta af peningunum.

Frétt mbl.is: Keflaður og skilinn eftir í baðkari

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert