Boðar losun hafta fyrir lok vorþings

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is­ráðherra og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, segir ekki um annað að ræða en að hrinda í framkvæmd áætlun um losun hafta nú áður en þingið lýkur störfum.

Þetta kom fram í yf­ir­lits­ræðu hans við setn­ing­ar­at­höfn 33. flokksþings fram­sókn­ar­manna í dag þar sem hann gerði fjármagnshöftin að umfjöllunarefni.

Sagði hann sérstakan stöðugleikaskatt þá munu skila hundruðum milljarða króna og ásamt öðrum aðgerðum gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað. „Það er ekki hægt að una því lengur að íslenska hagkerfið sé í gíslingu óbreytts ástands og eignarhald á fjármálakerfi landsins í því horfi sem það er,“ sagði hann.

Sigmundur Davíð sagði að á meðan undirbúningur fyrir losun hafta hefði staðið yfir hefðu stjórnvöld beðið þess að sjá hvort slitabúin legðu fram raunhæfa áætlun um nauðasamninga. Áætlun þar sem tekið yrði tillit til hagsmuna íslensks almennings og sýnt fram á að efnahagslegum stöðugleika yrði ekki ógnað. „Það er ekki óeðlilegt að gera slíka kröfu enda ómögulegt fyrir stjórnvöld að losa höftin fyrr en menn hafa vissu fyrir því að lífskjörum þjóðarinnar verði ekki stefnt í voða.“

Þá sagði hann að framan af hefði stefna kröfuhafanna miðað að því að bíða þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. „Markmiðið var upptaka evru með fyrirgreiðslu frá Evrópska seðlabankanum til að borga kröfuhafa út. Slíkt hefði verið efnahagslegt glapræði enda gefur evrópski seðlabankinn ekki aðildarlöndunum ókeypis peninga. Hingað hefðu sjálfsagt borist allar þær evrur sem þörf hefði verið á til að borga út alla kröfuhafa og alla snjóhengjuna ekki aðeins á fullu verði heldur á því yfirverði sem felst í því að pappírshagnaður kröfuhafa væri fjármagnaður af íslensum almenningi með lántöku.“

Þá sagði forsætisráðherra í ræðu sinni að ekki hefði verið hægt að stíga næstu skref við losun fjármagnshafta fyrr en afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar að Evrópusambandinu yrði skýrð.

„Eftir að undirbúningsvinnu sérfræðinganna lauk og tekið var fyrir Evrópusambandsleiðina var fulltrúum slitabúanna og vogunarsjóðanna tilkynnt að ekki væri hægt að bíða lengur. Engin raunhæf lausn hefur komið úr þeirri átt. Það er því ekki um annað að ræða en að hrinda í framkvæmd áætlun um losun hafta nú áður en þingið lýkur störfum. Sérstakur stöðugleikaskattur mun þá skila hundruðum milljarða króna og mun ásamt öðrum aðgerðum gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað. Það er ekki hægt að una því lengur að íslenska hagkerfið sé í gíslingu óbreytts ástands og eignarhald á fjármálakerfi landsins í því horfi sem það er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert