Falinn kostnaður við flutninga

Matvælastofnun er í dag staðsett á Selfossi. Fjölmargir starfsmenn búa …
Matvælastofnun er í dag staðsett á Selfossi. Fjölmargir starfsmenn búa þó á höfuðborgarsvæðinu og keyra á milli daglega. mbl.is/Sigurður Bogi

Falinn kostnaður vegna flutninga ríkisstofnana getur verið talsvert meiri en upphaflega er reiknað með og þarf ekki aðeins að leggja út fyrir kostnaði við að koma nýrri starfsstöð upp. Árið 2006 sameinaðist Landbúnaðarstofnun nokkrum öðrum opinberum stofnunum og embættum og var stofnuð að nýju á Selfossi.

Frá þeim tíma hefur þeim starfsmönnum sem búa á höfuðborgarsvæðinu verið boðið upp á akstur til og frá vinnu sem og fá þeir að auki greiddan hálftíma á fullum launum vegna akstursins. Um er að ræða 40% starfsfólksins. Því er um talsverðar upphæðir að ræða yfir níu ára tímabil.

Flutningar ríkisstofnana hafa talsvert verið í umræðunni síðustu misseri, sérstaklega frá því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilkynnti á síðasta ári að flytja skyldi Fiskistofu frá Hafnarfirði norður á Akureyri á þessu ári. Síðan þá hefur hann dregið aðeins í land með fyrri yfirlýsingar og segir að flutningurinn verði ekki á þessu ári, heldur yfir lengra tímabil.

Ýmis kostnaður hefur verið dreginn upp við slíkan flutning, en meðal annars hafði enginn starfsmaður, að forstöðumanni undanskyldum, ákveðið að flytja norður og því hefði þjálfun nýrra starfsmanna og þekkingartap orðið talsvert.

20 af 50 búa í bænum

Bjarki Rafn Kristjánsson, forstöðumaður rekstrar- og mannauðs hjá Matvælastofnun segir í samtali við mbl.is að af þeim 50 starfsmönnum sem vinni hjá stofnuninni á Selfossi séu 20 búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Margir þeirra fara daglega austur fyrir fjall, en Bjarki tekur einnig fram að margir þeirra séu sérfræðingar sem sitji fundi í bænum eða vinni þvert yfir landið og keyri því ekki daglega austur.

Stofnunin sjálf hefur nokkra bíla á sínum vegum til að sinna almennum verkefnum á vinnutíma, en af þeim eru tveir einnig notaðir í millikeyrslu og aka þá starfsmenn stofnunarinnar sjálfir eftir að hafa sameinast í bílana. Þá er einnig einn stærri bíll sem stofnunin á eingöngu notaður í slíka millikeyrslu.

Hálftími á dag á fullum launum

Bjarki segir að þar sem mörg embætti sem voru með starfsemi í Reykjavík hafi verið sameinuð undir Landbúnaðarstofnun hafi verið samið sérstaklega við starfsfólk sem þarf að keyra langar leiðir til vinnu.

Fá þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu því að fara hálftíma fyrr úr vinnu, en á fullum launum. Bjarki segir það hafa verið samkomulagsatriði á sínum tíma til að koma til móts við ferðatímann.

Starfsmenn sem nýta sér aksturinn greiða þó sjálfir gjald sem nemur um tíu þúsund krónum á mánuði og er því ætlað að mæta olíukostnaði.

Fiskistofa er til húsa að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. Sjávarútvegs- …
Fiskistofa er til húsa að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur talað fyrir því að flytja stofnunina norðurtil Akureyrar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert