Krefjast svara frá Sigmundi

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjórnarandstæðingar stigu hver á fætur öðrum í pontu á Alþingi í dag og gagnrýndu fjarveru formanna ríkisstjórnarflokkanna í óundirbúnum fyrirspurnartíma við upphaf vorþings. Var flestum ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á flokksþingi Framsóknarflokksins efst í huga og gagnrýndu að hann væri ekki til staðar til að svara fyrir þau orð sem hann lét þar falla.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði ekki mikinn brag á þessu framferði formannanna. Sagðist hún vilja spyrja þá spjörunum úr eftir tveggja vikna þinghlé þar sem forsætisráðherra hefði meðal annars tilkynnt að hann ætlaði að hefja losun hafta með aðeins 18 þingdaga til stefnu.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir því að annar óundirbúinn fyrirspurnartími yrði á morgun. Fleiri þingmenn tóku undir þá kröfu. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi að ríkisstjórnin hefði áform um að leggja fram stór þingmál á næstunni sem ekki hefðu verið kynnt. Frestur til að leggja fram frumvörp fyrir vorþing hafi runnið út í dymbilviku og nú ætti að breyta þeim fresti. Gagnrýndu fleiri þingmenn að sumarþing hefði verið boðað af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna í fjölmiðlum og að það væri í andstöðu við starfsáætlun þingsins.

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson vera á fundi vegna gjaldeyrishaftanna og að það þeir myndu báðir vera viðstaddir óundirbúinn fyrirspurnartíma á fimmtudaginn í vikunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert