Lögð áhersla á öryggi og umhverfi

Við undirritunina í dag.
Við undirritunina í dag. mbl.is/Golli

Þeistareykja­virkj­un er kom­in á fram­kvæmda­stig en und­ir­rit­un samn­inga um bygg­ingu stöðvar­húss og veitna fór fram í dag. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist á næstu vikum. 

Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem liggur suðaustur af Húsavík. Jörðin er nú í eigu Þingeyjarsveitar. Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag í höfuðstöðvum Landsvirkjunar kom fram að allur undirbúningur Þeistareykjavirkjunar hefur tekið mið af sérstöðu svæðisins. Það er nær ósnortið ef frá eru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður. Í skipulagsáætlunum virkjunarinnar hafa því verið afmörkuð verndarsvæði vegna náttúru- og fornminja.

Kom jafnframt fram að við hönnun virkjunar hefur verið hugað að áhrifum á landslag og ásýnd svæðisins. Framkvæmdir hafa því verið skipulagðar á þann hátt að landmótun og frágangur fer fram samhliða uppbyggingu.

Búa sig í haginn fyrir næsta áfanga

Í dag var undirritaður samningur um byggingu stöðvarhúss og veitna. Í erindi Gunnar Guðna Tómassonar, framkvæmdarstjóra framkvæmdarsviðs Landsvirkjunar kom fram að stöðvarhúsið samanstandi af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. Í fyrsta áfanganum verða sett upp stöðvarhús fyrir tvær vélar en aðeins ein vél verður sett upp. Með því er Landsvirkjun að búa sig í haginn fyrir næsta áfanga að sögn Gunnars. 

Á fundinum í dag kom fram að síðasta sumar var vatnsveita virkjunarinnar lögð og grafið fyrir grunni stöðvarhúss. Þá voru einnig boraðar vatnstöku-, niðurrennslis- og svelgholur, ásamt rannsóknarholum sem notaðar verða til að efla enn frekar rannsóknir á grunnvatni.

Að sögn Gunnars er kominn vegur að virkjuninni alveg frá Húsavík. Endanlegur frágangur á veginum fer fram í sumar og verður lagt bundið slitlag alla leið að stöðvarhúslóð. 

Í samstarfi við Fuji og Balcke Dürr

Með undirritun samnings Landvirkjunar og HNS Sögu í dag er búið að skrifa undir helstu verksamninga vegna 1. áfanga virkjunarinnar. Þó er samningur um byggingareftirlit og stjórnkerfi í útboði og fara samningar um stöðvarveitur og aflspennar í útboð síðar á þessu ári. 

Í febrúar undirritaði Lands­virkj­un samn­ing við Fuji Electric og Balcke Dürr um kaup á véla­sam­stæðu fyr­ir Þeistareykja­virkj­un. Fjög­ur til­boð bár­ust í verkið og var til­boð Fuji Electric og Balcke Dürr fjár­hags­lega hag­kvæm­asta til­boðið. Til­boðið er 75% af kostnaðaráætl­un verk­kaupa.

Árið 2011 var samið við Mannvit og Verkís í sambandi við hönnun virkjunarinnar. 

Þriðjungur kostnaðar þegar áfallinn

Kostanaður við 1. áfanga virkjunarinnar er áætlaður á bilinu 20-24 milljarðar króna. Að sögn Gunnars er af því þegar áfallinn kostnaður um þriðjungur. Hann samanstendur af ýmsum undirbúningskostnaði, rannsóknum, borunum, hönnun, vegagerð o.fl. 

Í erindi sínu lagði Gunnar áherslu á að öryggismál væru alltaf í fyrirrúmi í verkefnum Landsvirkjunar. „Markmið okkar er alltaf slysalaus starfssemi,“ sagði Gunnar en mikil áhersla verður lögð á öryggismál og allir starfsmenn sem vinna í framkvæmdarsvæðinu fara í gegnumsérstök öryggisnámskeið.

„Við stefnum einnig að því að ganga sem allra best um þau svæði sem okkur er treyst fyrir,“ sagði Gunnar en áhersla er einnig lögð á umhverfismál og frágang við framkvæmdasvæði. Veruleg uppgræðsluverkefni standa til vegna framkvæmdanna, bæði vegna vegagerðar og því sem raskað verður á virkjanasvæðinu. 

Fuglar, lindir og gróðurreitir vaktaðir

Landsvirkjun stundar umhverfisvöktun á virkjunarsvæðinu. Er það gert til þess að öðlast þekkingu á grunnástandi umhverfisþátta áður en rekstur virkjunar hefst.

„Við erum með viðamikla vöktun í kringum verkefnið til að vakta sem allra best áhrif á umhverfið,“ sagði Gunnar og nefndi til dæmis fuglavöktun, vöktun á lindum, gróðurreitum, hljóði og loftgæðum í því samhengi. Að sögn Gunnars verður þá hægt að sjá hver áhrif jarðvarmavirkjunarinnar verða á umhverfið. 

Gunnar sagði einnig frá því að Landsvirkjun hafi lagt áherslu á samráð og upplýsingar um verkefnið til nærsamfélagsins og sagði Gunnar frá því að opnir íbúafundir hafi verið haldnir í Þingeyjarsveit og norðurþingi tvisvar á síðasta ári. Jafnframt var haldinn samráðsfundur með ferðaþjónustuaðilum á svæðinu í janúar á þessu ári og var það gert af frumkvæði Landsvirkjunar. Með framkvæmdinni er talið að aðgengi almennings og ferðamanna að náttúruperslum Þeistareykja muni aukast til muna. 

Stöðvarhúsið samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum.
Stöðvarhúsið samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert