„Muni gleðja hans hjarta“

„Ég hygg að hvar sem Þorvaldur er staddur þá muni það gleðja hans hjarta að heyra þessi lög flutt. Hann þekkir okkur Skúla og er ánægður með okkur,“ segir Megas sem mun ásamt Skúla Sverrissyni og hljómsveit frumflytja í heild sinni Ósómaljóð Þorvaldar Þorsteinssonar á 29. Listahátíð í Reykjavík í Gamla bíói þriðjudaginn 26. maí kl. 20.

Varð strax heillaður

Að sögn Megasar eru nokkur ár síðan hann komst fyrst í kynni við lög Þorvaldar sem sá síðarnefndi samdi á námsárum sínum í Hollandi undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Þorvaldur fór á þeim tíma í hljóðver ásamt nokkrum hljóðfæraleikurum og tók upp átta lög sem hann hafði samið. Sjálfur söng hann textana. Þessar upptökur lágu ónýttar þar til fyrir nokkrum árum að Þorvaldur leyfði Megasi að heyra þær.

„Ég heyrði demódiskinn stuttu áður en hann dó og varð strax heillaður, því hann var skemmtilegur músíkant,“ segir Megas og rifjar upp að Þorvaldur hafi leyft fáum öðrum að heyra tónlist sína. „Í jarðarför Þorvaldar var eitt laga hans flutt undir stjórn Skúla Sverrissonar. Um svipað leyti fengum við Skúli báðir þá hugmynd að gaman væri að safna saman lögum Þorvaldar og taka þau upp, því hans eigin demóupptökur liðu fyrir tæknilega vankanta og eru því ekki markaðsvænar,“ segir Megas og tekur fram að í flutningnum verði í einu og öllu farið eftir hugmyndum Þorvaldar um útfærslu laganna.

„Í ljóðunum tala ímyndaðar persónur sem þusast út í lífið og samfélagið. Þau eru eins og litlir leikþættir og í þeim má greina kjarnann að mörgu sem Þorvaldur átti seinna eftir að láta frá sér fara. Þar má einnig heyra hvernig Þorvaldur hafði strax fundið sinn beitta stíl meðan hann var enn í námi og þau eru mikilvæg viðbót við höfundarverk hans sem spannar tugi bóka og leikrita, auk allra myndlistarsýninganna,“ segir m.a. í tilkynningu frá Listahátíð í Reykjavík.

Þorvaldur Þorsteinsson
Þorvaldur Þorsteinsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert