Skapandi spuni rannsóknasetursins

Sykurskatturinn var í gildi í tæplega tvö ár, en SÍBS …
Sykurskatturinn var í gildi í tæplega tvö ár, en SÍBS segir ályktanir út frá skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar um að hann hafi ekki haft nein áhrif séu rangar. mbl.is/Sigurgeir

Þær ályktanir sem Rannsóknasetur verslunarinnar dregur af rannsókn sinni á áhrifum sykurskatts eru rangar. Margir aðrir þættir en skatturinn sjálfur höfðu áhrif á verðlag og framboð sykurs meðan skatturinn var í gangi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÍBS, en þar er sagt að skapandi spuna þurfi til að túlka skýrsluna þannig að sykurskattur virki ekki.

Sykurskatturinn var innleiddur 1. mars 2013 og afnuminn um síðustu áramót. Markmið hans var að draga úr sykurneyslu og auka tekjur ríkissjóðs. Í tilkynningunni kemur fram að áður en skatturinn tók gildi hafi mikið sykurfjall verið flutt til landsins sem hafi enst í 12-15 mánuði af 21 mánaðar gildistíma skattsins.

Áhrif skattsins vöruðu því einungis í 6-9 mánuði að sögn SÍBS, en á þeim tíma lækkaði heimsmarkaðsverð sykurs ört sem vó á móti skattinum. Nefnd eru dæmi um að Cocoa puffs hafi lækkað um 9%, gos um 3% og Homeblest kex um 2% á fyrsta ári skattsins.

Segir SÍBS því að heildarniðurstaðan í þessu máli sé sú að skatturinn hafi ekki sagt til sín í verðlagi og því ekki haft áhrif á neyslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert