Gætu þurft að segja upp kennurum

Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans í Reykjavík.
Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans í Reykjavík. Árni Sæberg

Viðræður á milli fulltrúa tónlistarskóla í Reykjavík og borgaryfirvalda um launagreiðslur til tónlistarkennara standa enn yfir og liggur engin niðurstaða fyrir. Skólastjóri Söngskóla Reykjavíkur segir slæmt að viðræðurnar dragist á langinn. Semjist ekki komi að því að segja þurfi upp kennurum.

Deilur hafa staðið yfir á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um launagreiðslur til tónlistarskólakennara á mið- og framhaldsstigi. Borgin telur ríkið eiga að standa straum af öllum launagreiðslum vegna mið- og framhaldsstiga. Ríkið greiðir hluta þessara launa í gegnum jöfnunarsjóð, en þær greiðslur nægja hvergi nærri til að standa straum af kennslukostnaði, borgin neitar að greiða mismuninn og þar liggur hundurinn grafinn, að sögn Garðars Cortes, skólastjóra Söngskólans í Reykjavík. 

Vegna þess að Reykjavíkurborg greiði ekki kennslulaunin að fullu hafi skólinn átt erfitt með að greiða út laun. Það hafi hins vegar ennþá alltaf verið gert á réttum tíma en þar komi til lán sem skólinn hafi neyðst til að taka. Garðar segir að það sé hins vegar spurning hve lengi skólinn geti haldið þetta ástand út.

„Ég held að það komi bara af sjálfu sér að ef þessar samræður skila ekki jákvæðum árangri, þá kemur að því að það þarf að segja hluta starfsfólks upp, en ennþá hefur engum verið sagt upp, við forðumst það alveg fram í rauðan dauðann. Það er slæmt fyrir okkur ef viðræðurnar dragast,“ segir Garðar.

Segist hann vita til þess að kennarar fylgist vel með þróun mála og þeir séu að sjálfsögðu uggandi um sinn hag. Hann ætlast hins vegar til og treysti því að lausn verði fundin.

„Borgin er okkur vinveitt og vill leysa þetta mál, hún er batterí sem auðvitað þarf sinn tíma, en við erum komin í þrot og höfum ekkert upp á að hlaupa, hvorki tíma né peninga," segir skólastjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert