Spáð hita og sól um helgina

Veðrið verður best norðan- og austanlands um helgina.
Veðrið verður best norðan- og austanlands um helgina. mbl.is/Sigurður Bogi

Um helgina gæti hitinn farið upp fyrir fimmtán stig á norðan- og austanverðu landinu, að sögn Teits Arasonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Það verður hlýtt loft yfir landinu, hlý sunnanátt en fyrir norðan og austan er bjart og hlýjast núna um helgina,“ segir hann. Á Suður- og Vesturlandi verður skýjað að mestu og þurrt en hiti í kringum sex til tólf stig.

Aðspurður hvort búast megi við miklum vindi með hlýindunum segir hann að blása muni hressilega vestast á landinu. „Á norðanverðu Snæfellsnesi verður oftast hvasst í þessum aðstæðum,“ segir hann en bætir við að annars ætti vindurinn ekki að vera til trafala að neinu ráði.

Landsmenn fá þó ekki að njóta veðurblíðunnar lengi því það mun kólna fljótt aftur samkvæmt veðurspám. „Það verður svalara í næstu viku,“ segir Teitur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert