Dróni tafði Icelandair-vél

Flugvél Icelandair. Myndin er úr safni.
Flugvél Icelandair. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Flugvél Icelandair sem var á leið til Manchester þurfti að lenda í Liverpool í morgun eftir að flugvellinum í Manchester var lokað vegna tilkynningar um að sést hefði til dróna á flugi við hann. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segist aldrei hafa heyrt af slíku atviki áður.

Á vefsíðu Manchester Evening News kemur fram að lokað hafi verið fyrir allt flug í tuttugu mínútur á flugvellinum í Manchester þegar tilkynnt var um dróna. Lögreglan leitaði að drónanum en enginn fannst. Flugumferð um völlinn komst aftur á um hádegi að staðartíma.

Guðjón staðfestir að vél Icelandair hafi verið ein af þeim sem urðu fyrir röskunum vegna lokunarinnar. Þurfti vélin að lenda á John Lennon-flugvelli í Liverpool þar sem hún tók eldsneyti og beið í um eina og hálfa klukkustund. Að svo búnu hélt hún leið sinni áfram til Manchester sem er í næsta nágrenni við Liverpool. Því seinkar vélinni frá Manchester um það sem þessu nemur.

„Þetta er í fyrsta sinn sem maður hefur heyrt um svona atvik,“ segir Guðjón.

Frétt Manchester Evening News af lokun Manchester-flugvallar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert