Framkvæmdir við Austurbakka að hefjast

Svæðið sem um ræðir er hvítt á myndinni.
Svæðið sem um ræðir er hvítt á myndinni. Teikning/Landstólpar

Framkvæmdir við uppbyggingu á reitum 1 og 2 við Austurbakka í Reykjavík hefjast  sumardaginn fyrsta, 23. apríl en þá verðu fyrsta skóflustungan tekin á byggingarsvæðinu. Svæðið afmarkast af Geirsgötu til norðurs, Kalkofnsvegi og Lækjargötu til austurs, Hafnarstræti til suðurs og Tollhúsinu til vesturs.

 Landstólpar þróunarfélag sjá um framkvæmdina og mun reisa þar byggingar með bæði íbúðum og fjölbreyttu húsnæði fyrir ýmsa  atvinnustarfsemi s.s. verslanir, veitingahús, skrifstofur og þjónustu, segir í fréttatilkynningu.

Í fyrsta áfanga verður grafið út fyrir bílakjallara og í tengslum við þá framkvæmd verður farið í fornleifarannsóknir á svæðinu. Bílakjallarinn verður samtengdur öðrum bílakjöllurum á svæðinu og verða því um 1.000 bílastæði í sameiginlegum kjallara við Austurbakka.

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum ljúki haustið 2018. Þeim sem hafa notað bílastæðið á byggingareitnum, sem verður lokað við upphaf framkvæmdanna, er bent á bílastæðin á Miðbakka, við Hörpu og hjá Kolaporti.

Vegna framkvæmdanna verður bílastæðum bílastæðasjóðs á svæðinu lokað frá og með fimmtudeginum 23. apríl.

Svæðið sem um ræðir er fyrir austan Tollhúsið en þar hafa verið 198 bílastæði. Bílastæðasjóður bendir á nærliggjandi bílastæði á Miðbakka, í bílastæðahúsunum í Kolaporti og í Hörpu. Hægt er að nálgast upplýsingar um laus stæði í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs hér.  http://www.bilastaedasjodur.is/.

  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir reitinn má byggja íbúðir og skrifstofuhúsnæði á reitnum, alls 21.400 m2 ofanjarðar.  Verslun og þjónusta er á jarðhæðum og má vera á neðstu tveimur hæðum. Göngugata verður í gegnum svæðið frá Lækjartorgi að Hörpu. Bílastæðakjallari verður undir reitnum og mun hann síðar tengjast bílakjallara undir reitum 5 og 6 á Austurhafnarsvæðinu, hinum megin við Geirsgötu og bílakjallara Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert