„Enginn fuckin' kaupandi þarna“

Birnir Sær í héraðsdómi í dag.
Birnir Sær í héraðsdómi í dag.

Markaðsaðilar virðast ekki hafa haft mikinn áhuga á hlutabréfakaupum í íslensku bönkunum í febrúar 2008 á sama tíma og eigin viðskipti Kaupþings juku mikið við sig í bankanum. Í þessu kristallast nokkuð málflutningur saksóknara í kauphliðarhluta stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, en málið hélt áfram í dag, fjórða degi aðalmeðferðar.

Í símtali sem saksóknari spilaði milli Birnis Sæs Björnssonar, fv. starfsmanns eigin viðskipta Kaupþings og Björns Hjaltested Gunnarssonar, fv. starfsmanns Kaupþings segir Björn að það sé enginn kaupandi á markaðinum núna. „Það er bara enginn fuckin' kaupandi þarna,“ segir Björn.

Allir kúnnar á Íslandi „dauðir“

Bætir hann við að það komi honum á óvart hversu mikinn fjölda bréfa Birnir hafi tekið inn á sig þennan mánuðinn og áætlar að hann hafi keypt um 25 milljón hluti í Kaupþingi frá áramótum. Segir hann að það sé búið að „dúndra“ á hann gífurlega miklu magni.

Síðar segir Björn að allir kúnnar á Íslandi séu „dauðir“ og Birnir segist vel skilja það. „Það er engin ástæða til að vera að kaupa þessa banka með hérna, þegar þeir geta ekki fund-að sig“ og bætir við að útlönd séu í ruglinu.

Birnir segir að þetta símtal hafi ekki átt við Kaupþing, enda hafi bankinn á þessum tímapunkti verið að gera góða hluti erlendis í fjármögnun.

Í öðru símtali stuttu seinna ræðir Birnir við Ingólf Helgason, forstjóra bankans á Íslandi, um að Glitnir hafi verið að kasta bréfum í Kaupþingi og að „fáránlega erfitt“ sé að eiga við stöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert