Lögreglubílarnir sítengdir

Fv. Agnar Hannesson, þjónustu og rekstarstjóri bílamiðstöðvar RLS, Ólafur Helgi …
Fv. Agnar Hannesson, þjónustu og rekstarstjóri bílamiðstöðvar RLS, Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á suðurnesjum, Haraldur Johannessen ríkislögeglustjór sem afhenti bílana og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuborgarsvæðisins. Höfuborgarsvæðið fékk fimm bíla og suðurnesin einn.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum hafa fengið afhenta sex nýja bíla sem eru búnir nýjum tækjabúnaði sem verið hefur í þróun síðasta eitt og hálft ár. Með því er verið að tengja bílana beint við miðlægt upplýsingakerfi lögreglunnar þannig að þeir virka næstum eins og lögreglustöðvar. Verður spjaldtölva í hverjum bíl sem hægt er að nota við upplýsingaöflun og skráningu.

Hér má sjá myndband af nýju bílunum.

Jónas Ingi Pétursson, yfirmaður rekstrar hjá Ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að þetta sé algjör bylting fyrir almenna lögreglumenn. Hingað til hefur öll vinna á vettvangi verið í pappírsformi þar sem upplýsingar eru skrifaðar niður á blað og þegar komið er á stöðina seinna þann dag eru upplýsingarnar slegnar inn í tölvu.

Með nýja tölvukerfinu munu lögreglumenn geta skráð upplýsingar beint niður á verkefni sem og að leita upplýsinga í rauntíma í stað þess að kalla alltaf inn á fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra í gegnum talstöðvar.

Gífurlegur tímasparnaður

Jónas segir að prófanir hafi sýnt að þetta minnki hefðbundna pappírsvinnu lögreglumanna við hvert umferðarlagabrot úr 20-25 mínútum niður í u.þ.b. 5 mínútur. Þetta stytti líka talsvert þann tíma sem bílstjórar þurfi að verja í lögreglubíl við að gefa upplýsingar. „Þetta er gífurlegur tímasparnaður,“ segir Jónas.   

Hver bíll er útbúinn fjölrása beini þar sem hægt er að vera með allt að fjögur farsímakort. Finnur beinirinn besta sambandið hverju sinni og dulkóðar öll samskipti í leiðinni.

Segir Jónas að með þessu geti lögreglumenn aflað þeirra upplýsinga sem þeir þurfi í stað þess að reiða sig á fjarskiptamiðstöðina í sífellu. Þannig nýtist tími og mannskapur betur. Segir hann bílana í raun verða hálfgerðar lögreglustöðvar með þessari breytingu.

100 bílar á 5 árum

Jónas segir að sá tími sem verkefnið hafi verið í þróun hafi komið vel út. Fara nú fimm bílar til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og einn til lögreglustjórans á Suðurnesjum. Um er að ræða sérstaka lögregluútgáfu af Volvo v70 bílum sem eru sérstaklega standsettir hér á landi.

Ríkislögreglustjóri á og rekur um 160 bíla og hefur að jafnaði endurnýjað 14-18 bíla á ári. Jónas segir að stefnt sé að því að á næstu fimm árum verði nýir bílar búnir þessum búnaði og að þeir verði orðnir um 100 talsins á tímabilinu. Segir hann þetta vera í takt við áherslur Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, um að lögreglan tileinki sér tækni og þekkingu í starfi.

Nýja kerfið.
Nýja kerfið.
Frá afhendingunni í dag. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Frá afhendingunni í dag. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert