10 festu bíla sína á Austurlandi

Eins og sjá má á myndinni er skyggni á Fjarðarheiði …
Eins og sjá má á myndinni er skyggni á Fjarðarheiði afar lítið þessa stundina. Af vef Vegagerðarinnar

Kalla þurfti út björgunarsveitir frá Seyðisfirði og Jökuldal fyrr í dag til að aðstoða ökumenn á Austurlandi í vanda. Um hádegi festust átta bílar á leið sinni um Jökuldal, en leiðin hefur verið ökumönnum erfið. Eftir björgunarstörf á svæðinu ákvað lögregla í samráði við Vegagerðina að loka leiðinni.

Þá þurfti að aðstoða tvö ökumenn sem lentu í vandræðum á Fjarðarheiði, en afar lélegt skyggni er á svæðinu. 

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum og sumstaðar stórhríð. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Fjarðarheiði og ófært og óveður á Vatnsskarði eystra. Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar. Mikið hvassviðri er í Hamarsfirði og sandfok á Suðausturlandi.

Þá er jafnframt leiðinlegt veður á Akureyri samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, og mjög hált á götum úti. Einn vægur árekstur varð þar fyrr í dag, en engin slys hafa orðið á fólki.

Það er hálka og snjóþekja og sumstaðar skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi, einkum þegar komið er austur fyrir Skagafjörð. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi, Grenivíkurvegi, Hólasandi og Dettifossvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert