Lyf fyrir tvo á 225 milljónir

Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

Árið 2014 sat Landspítali uppi með 225 milljóna króna lyfjakostnað vegna innkaupa á ákveðnu lyfi fyrir tvo einstaklinga.

Þetta kom fram við kynningu á ársreikningi Landspítala á Hotel Nordica í dag en að sögn Maríu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landspítala, telja Sjúkratryggingar Íslands sig ekki eiga að bera kostnaðinn af lyfjameðferð sjúklinganna tveggja sem þjást af lífshættulegum sjúkdómi.

María segir að auðvitað komi ekki annað til greina en að meðhöndla viðkomandi sjúklinga en að þar með falli kostnaðurinn á spítalann. Hún vildi ekki gefa upp hvert lyfið eða sjúkdómurinn er fyrir sakir sjúklinganna.

María bendir á að mikið hafi verið sparað í öðrum lyfjakostnaði spítalans og segir að hefði ekki komið til þessa óvænta kostnaðar hefði lyfjakostnaður spítalans í raun verið lægri í ár en í fyrra. Lyfjakostnaður árið 2013 var 1.588 milljónir en 1.672 milljónir árið 2014.

Frétt mbl.is:
Tekjuhalli lækkar um helming milli ára

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert