Mikill sinubruni við Stokkseyri

Tvær sveitir Brunavarna Árnessýslu berjast nú við mikinn sinueld norðan við Stokkseyri. Eldurinn er á nokkuð stóru svæði, en um er að ræða mýrar og votlendi og eru engar byggingar nálægar. Ómöglegt er að komast að eldinum með tækjabúnað og er mannskapurinn því á fæti í klappvinnu.

Slökkviliðið var kallað út fyrir rúmum klukkutíma og vinna 15-18 manns að því að slökkva eldinn eins og stendur. Þá flýgur vél yfir svæðinu og metur stöðuna úr lofti, en flugmaður hennar er einn slökkviliðsmanna.

Að sögn Halldórs Ásgeirssonar varðstjóra er mikil vinna framundan við að slökkva eldinn. Hann segir að við fyrstu sýn logi á allt að 10 hekturum og engu hægt að beita nema sinuklöppum, þar sem um votlendi er að ræða og ómögulegt að koma bílum að.

Mikinn reykjarmökk leggur frá svæðinu en eins og fyrr segir þá standa engar byggingar nálægt eldinum og engin stór hætta á ferðum eins og er.

Uppfært kl. 22.54:

Á þessari stundu eru að verið að ljúka við að slökkva síðustu glærur eldsins. Að sögn Halldórs varðstjóra verður í kjölfarið farin ein umferð yfir svæðið til viðbótar, til að reyna til hins ítrasta að tryggja að eldur blossi ekki upp á ný.

Engan reyk leggur nú frá svæðinu, en Halldór segir að það hafi reynst ótrúlega notadrjúgt að fljúga yfir þegar reykurinn var þéttur, en þannig var hægt að beina mönnum að eldhreiðrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert