Wu-Tang Clan ekki hætt við

Merki Wu-Tang Clan.
Merki Wu-Tang Clan.

Mörgum aðdáendum bandarísku hip hop hljómsveitarinnar Wu-Tang Clan hefur eflaust brugðið í brún í kvöld, en þá var viðburðaskráningu sveitarinnar fyrir Secret Solstice eytt út af Facebook. Þeir sem þegar höfðu meldað sig á viðburðinn, eitthvað á 3.000 manns, fengu tilkynningu um að hætt hefði verið við hann.

Friðrik Ólafsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, segir ekkert að óttast. Líklega séu um mistök að ræða af hálfu þeirra sem sjá um Facebook-síðuna, en hann hafi enga meldingu fengið um að sveitin hyggist hætta við að koma fram á hátíðinni, sem fer fram 19.-21. júní nk.

Að sögn Friðriks var gengið frá hótelgistingu fyrir hljómsveitina í gær, en hún hyggst dvelja hér í tvær nætur. Hann hefur verið í sambandi við tengilið erlendis í kjölfar þess að viðburðinum var eytt útaf Facebook, en segir að ef sveitin ætlaði sér að hætta við hefði umboðsmaður haft samband.

Gengið hefur verið frá samningum og hluta greiðslu og geta aðdáendur Wu-Tang Clan sofið rólegir ef marka má Friðrik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert