Beggi Morthens safnar fyrir Nepal

Beggi, lengst til vinstri, og Tómas Ragnarsson, fyrir miðju.
Beggi, lengst til vinstri, og Tómas Ragnarsson, fyrir miðju. mbl.is/Árni Sæberg

Beggi Morthens, tónlistarmaður og eigandi verslunarinnar Kailash í Hafnarfirði, stóð í dag fyrir útitónleikum og fjársöfnun vegna ástandsins í Nepal. 

„Við vildum gleðja einhvern og blása lífi í tilveruna hjá okkur. Svo það sé ekki alltaf þunglyndi og hörmungar heldur líka svolítil gleði,“ segir Beggi. 

Seldir voru svokallaðir bænaklútar og rennur andvirði klútanna óskert til Nepal. „Við verslum mikið við Nepal og vildum við leggja okkar af mörkunum,“ segir Beggi. Hann ferðaðist um Nepal árið 2010 þar sem hann kynntist innfæddum.

„Um leið og ég frétti af hörmungunum þá sendi ég póst út. Mitt fólk er búið að svara og þau sluppu öll. En eins og við heyrum og sjáum þá eru allir skelfingu lostnir. Þau eru þakklát fyrir að við höfum tékkað á þeim, það minnir þau á að það sé hugsað til þeirra,“ segir Beggi.

Hann segir að vissulega hafi hörmungarnar í Nepal áhrif á reksturinn. „Það verður erfiðara að fá vörur og öll samskipti ganga mjög hægt, þannig jú þetta hefur áhrif. En þegar maður tekur sjálfan sig til hliðar þá er þetta verst fyrir Nepala, það verður erfitt fyrir þá að rísa aftur upp,“ segir hann en bætir við að Nepalarnir vilji halda áfram viðskiptum og samskiptum.

Söfnunin gekk vel að sögn Begga og segist hann afar þakklátur öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið með því að fjárfesta í bænaklút en klútinn nota Nepalar þegar þeir hugleiða og biðja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert